Skoðun
Þórarinn Þórarinsson

Svarthvítar hetjur

Þórarinn Þórarinsson skrifar

Duran Duran-gengið vorum við kölluð í Helgarpóstinum 1983 þegar upplýst var að „nýr þrýstihópur æstra poppdýrkenda“ hefði yfirtekið lesendadálka dagblaðanna með frómum óskum um að hljómsveitin Duran Duran yrði fengin til þess að halda hér tónleika.

Svolítið dæmigert fyrir þá læviblöndnu bjartsýni og harmþrungnu gleði sem einkenndi 80’s-tónlistina sem kennd er við nýrómantík og krakkarnir dönsuðu við með sítt að aftan og glannalega andlitsmálningu.

Duran Duran átti þarna enga jafningja þótt fegurð strákanna, kynþokki og sturlaðar vinsældirnar væru notaðar gegn þeim. Og okkur.

Sagan hefur fyrir löngu sannað að þeir voru og eru fantagott band. John er yfirburða bassaleikari og textar Simons eru hyldjúp lýrík sem ber höfuð og herðapúða yfir allt hitt eitísið.

„Einnig viljum við, eins og allir aðrir, að Duran Duran komi til Íslands og haldi tónleika. Það hlýtur að vera hægt, því þeir fara til allra annarra landa, meira að segja Japans og Kína.“

Skrifuðu tveir aðdáendur í Moggann 1984 en þrátt fyrir hin góðu og gildu rök um Kína og Japan rættist þessi ósk okkar allra ekki fyrr en 2005. Full seint í rassinn gripið en frábærir tónleikarnir uppfylltu tíu þúsund æskudrauma.

Vart hefur nokkurn bréfritara fortíðar órað fyrir því að Duran Duran ætti eftir að koma hingað tvisvar en á þriðjudaginn fáum við allra síðasta sénsinn í stigagangi æskunnar þegar fjórir af fimm munu gæjalegir taka öll völd, í Laugardalshöll, umvafðir svarthvíta sjarmanum. Ljúf er sú skylda að vera þar ýlfrandi eins og hungraðir úlfar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.