Körfubolti

Sjáðu sögu besta leikmanns NBA í nýrri auglýsingu Nike

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. Getty/Gregory Shamus
Íþróttavöruframleiðandinn Nike var ekki lengi að nýta sér fréttir næturinnar þegar Giannis Antetokounmpo var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar á nýlokinni leiktíð.

Nike setti saman skemmtilegt myndband þar sem er farið yfir ótrúlegan feril hans en fjölskylda hans bjó við sára fátækt í Grikklandi fyrir aðeins átta árum.

Hér fyrir neðan má sjá sögu besta leikmanns NBA í nýrri auglýsingu Nike.





Giannis Antetokounmpo átti magnað tímabil með Milwaukee Bucks en þessi 24 ára gamli Grikki hefur bætt sinn leik á hverju tímabili sínu í NBA-deildinni.

Milwaukee Bucks náði besta árangri allra liða í NBA-deildinni með því að vinna 60 af 82 leikjum sínum. NBA-meistarar Toronto Raptors unnu 58 leiki og Golden State Warriors vann 57 leiki.

Giannis var með 27,7 stig, 12,5 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik með því að nýta 58 prósent skota sinna og hefur aldrei skilað hærri tölum á ferlinum. Tímabilið á undan var hann með 26,9 stig, 10,0 fráköst og 4,8 stoðsendingar í leik.





Það er ekki nóg með að Giannis sé að skila þessum frábæru tölum í sókninni þá er hann einnig einn af bestu varnarmönnum NBA-deildarinnar.

Árið 2017 var Giannis sá leikmaður sem bætti sig mest í deildinni en hann hækkaði þá meðaltölin sín úr 16,9 stigum, 7,7 fráköstum og 4,3 stoðsendingum í leik upp í 22,9 stig, 8,7 fráköst og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Giannis hefur síðan haldið áfram að hækka meðaltöl sín á síðustu tveimur tímabilum.

Giannis Antetokounmpo er fæddur í desember árið 1994 og er því enn bara 24 ára gamall. Hann ætti því að fá tækifæri til að gera enn stærri hluti á sínum ferli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×