Erlent

Farþegaþotan sem brotlenti í Moskvu varð fyrir eldingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldur kviknaði í þotunni þegar hún brotlenti. Sumum farþegunum tókst að koma sér út en aðrir sátu fastir í brennandi flakinu.
Eldur kviknaði í þotunni þegar hún brotlenti. Sumum farþegunum tókst að koma sér út en aðrir sátu fastir í brennandi flakinu. Vísir/EPA
Eldingu laust niður í rússneska farþegaþotu skömmu áður en hún brotlenti á flugvelli í Moskvu í síðasta mánuði. Rannsókn á slysinu sem varð 41 að bana leiddi einnig í ljós að þotan kom of hratt til lendingar og var þar að auki ofhlaðin.Farþegaþotan var á vegum rússneska flugfélagsins Aeroflot og var á leið frá Moskvu til Múrmansk með 73 farþega um borð auk fimm manna áhafnar. Eldur kviknaði í vélinni þegar hún brotlenti á Sjeremetjevó-flugvelli 5. maí.Rannsakendur slyssins nefndu ekki eina orsök þegar þeir greindu frá niðurstöðum sínum í dag. Þeir þurfi lengri tíma til að ljúka við lokaskýrslu sína, að því er segir í frétt Reuters.Eldingin olli því að það slökknaði á sjálfstýringu farþegaþotunnar. Skömmu síðar brást fjarskiptakerfi vélarinnar. Flugmennirnir virtust engu að síður ekki telja hættu á ferðum. Þeim tókst að tilkynna flugumferðarstjórn í gegnum neyðartíðni að þeir ætluðu að koma til lendingar.Þotan kom of hratt til lendingar og var þar að auki of þung. Rannsakendur segja að aðflug hennar hafi verið reikult. Þeir fundu þó ekki að flugmönnunum í bráðabirgðaniðurstöðum sínum.Slysið var annað mannskæða slysið með Suhkoi Superjet-farþegaþotunni á þeim níu árum frá því að tegundin var fyrst tekin í notkun. Superjet-vélin er sú fyrsta sem framleidd er í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna.Auk rannsóknar flugmálayfirvalda stendur yfir sakamálarannsókn á flugslysinu.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.