Körfubolti

Spilar í Víetnam í sumar en mætir síðan í Ljónagryfjuna í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Martin, lengst til hægri, í leik með Tennessee State  á móti Duke.
Wayne Martin, lengst til hægri, í leik með Tennessee State á móti Duke. Getty/Streeter Lecka

Njarðvíkingar hafa ráðið sér bandarískan leikmann fyrir næsta vetur í Domino´s deild karla í körfubolta og þeir ætla að styrkja teiginn hjá sér.

Njarðvík hefur samið við miðherjann Wayne Martin en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins undir fyrirsögninni „Martin í Ljónagryfjuna“ Njarðvíkurliðið var með bandaríska bakvörðinn Jeb Ivey á síðustu leiktíð en að þessu sinni fær Njarðvík sér stóran leikmann.

Martin er 26 ára gamall, 201 sentímetrar á hæð og 108 kíló á þyngd. Þetta er því stór og kraftmikill strákur. Martin útskrifaðist úr Tennessee State University vorið 2017. Þar skilaði hann 14,4 stigum og 9,2 fráköstum í leik og var með 60,5% 2ja stiga skotnýtingu.

Síðustu tvö keppnistímabil hefur hann spilað í Evrópu. Fyrra tímabilið með Sigal Prishtina í Kosovo en þar lék hann m.a. í FIBA Europe Cup. Hann færði sig svo til Kýpur eftir áramót og var þar með 14,2 stig og 8,5 fráköst á leik með Etha.

Í vetur var Martin á mála hjá Leicester í tvo mánuði þar sem að hann leysti af meiddan leikmann. Hann lék einnig með Leicester í FIBA Europe Cup, en Leicester varð meistari í ensku deildinni í vor.

Í sumar er Wayne Martin að spila í sumardeild í Víetnam og lýkur þeirri keppni í ágúst en áætlað er að kappinn verði mættur til Íslands um mánaðamótin ágúst/september.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.