Körfubolti

Spilar í Víetnam í sumar en mætir síðan í Ljónagryfjuna í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Martin, lengst til hægri, í leik með Tennessee State  á móti Duke.
Wayne Martin, lengst til hægri, í leik með Tennessee State á móti Duke. Getty/Streeter Lecka
Njarðvíkingar hafa ráðið sér bandarískan leikmann fyrir næsta vetur í Domino´s deild karla í körfubolta og þeir ætla að styrkja teiginn hjá sér.

Njarðvík hefur samið við miðherjann Wayne Martin en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins undir fyrirsögninni „Martin í Ljónagryfjuna“ Njarðvíkurliðið var með bandaríska bakvörðinn Jeb Ivey á síðustu leiktíð en að þessu sinni fær Njarðvík sér stóran leikmann.

Martin er 26 ára gamall, 201 sentímetrar á hæð og 108 kíló á þyngd. Þetta er því stór og kraftmikill strákur. Martin útskrifaðist úr Tennessee State University vorið 2017. Þar skilaði hann 14,4 stigum og 9,2 fráköstum í leik og var með 60,5% 2ja stiga skotnýtingu.

Síðustu tvö keppnistímabil hefur hann spilað í Evrópu. Fyrra tímabilið með Sigal Prishtina í Kosovo en þar lék hann m.a. í FIBA Europe Cup. Hann færði sig svo til Kýpur eftir áramót og var þar með 14,2 stig og 8,5 fráköst á leik með Etha.

Í vetur var Martin á mála hjá Leicester í tvo mánuði þar sem að hann leysti af meiddan leikmann. Hann lék einnig með Leicester í FIBA Europe Cup, en Leicester varð meistari í ensku deildinni í vor.

Í sumar er Wayne Martin að spila í sumardeild í Víetnam og lýkur þeirri keppni í ágúst en áætlað er að kappinn verði mættur til Íslands um mánaðamótin ágúst/september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×