Körfubolti

Toronto minnkaði muninn eftir sigur í tvíframlengdum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard fagnar en Khris Middleton er allt annað en sáttur.
Kawhi Leonard fagnar en Khris Middleton er allt annað en sáttur. AP/Nathan Denette
Eftir töp í tveimur fyrstu leikjunum náði Toronto Raptors að minnka muninn í nótt í úrslitaeinvígi Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta.

Toronto vann 118-112 sigur á Milwaukee Bucks eftir tvíframlengdan leik og kom því í veg fyrir að staðan væri 3-0 í báðum einvígum úrslitakeppninnar.

Þetta var aðeins annað tap Milwaukee Bucks liðsins í allri úrslitakeppninni því liðið sló Detroit Pistons út 4-0 og vann Boston Celtics 4-1.

Kawhi Leonard var öflugur fyrir Toronto með 36 stig þar af átta þeirra í síðari framlengingunni. Hann þurfti hins vegar að spila 52 mínútur í leiknum sem gæti komið niður á honum í framhaldinu. Hann hafði mest áður spilað 46 mínútur í einum leik í úrslitakeppninni.



Áhyggjuefnið fyrir Toronto er kannski það að tveir bestu menn Milwaukee Bucks áttu allt annað en góðan dag.

Giannis Antetokounmpo og Khris Middleton voru bara með 12 og 9 stig í leiknum og hittu saman aðeins úr 8 af 32 skotum sínum. Giannis fékk líka sex villur og tapaði boltanum átta sinnum en var með 23 fráköst.

Það voru fleiri en Kawhi Leonard að skila tölum hjá Toronto liðinu. Pascal Siakam var með 25 stig og 11 fráköst, Norman Powell kom með 19 stig af bekknum og Marc Gasol var með 16 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.





Pascal Siakam gat reyndar klárað leikinn í venjulegum leiktíma en klikkaði á tveimur vítaskotum þegar 7,4 sekúndur voru eftir af leiknum.

George Hill skoraði 24 stig fyrir Milwaukee Bucks og tryggði sínum liði aðra framlengingu þegar hann jafnaði metin í 103-130 á vítalínunni. Malcolm Brogdon skoraði 20 stig fyrir Bucks en liðið var búið að vinna fimm útileiki í röð fyrir þennan leik.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×