Körfubolti

Strákur með tveggja og hálfs metra faðm í boði í nýliðavali NBA í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tacko Fall (númer 24) í baráttunni um frákast við Zion Williamson í úrslitakeppni háskólakörfuboltans í mars.
Tacko Fall (númer 24) í baráttunni um frákast við Zion Williamson í úrslitakeppni háskólakörfuboltans í mars. Getty/Lance King

Það efast enginn um það að Zion Williamson verði valinn fyrstur í nýliðavali NBA-deildarinnar í sumar en hvaða lið ætlar að veðja á sögulega stóran miðherja frá Senegal.

Tacko Fall er nafn sem körfuboltaáhugafólk á eftir að heyra meira af í sumar en hann kemur úr University of Central Florida.

Miðherjinn vakti langmesta athygli um helgina þegar mest spennandi leikmenn nýliðvals NBA-deildarinnar í ár voru mældir í bak og fyrir á sérstakri samkomu efnilegustu leikmannanna.

Það var heldur ekki af ástæðulausu enda setti Tacko Fall nokkur met í þessum mælingunum.

Tacko Fall er enginn meðalmaður svo mikið er víst. Hann mældist 231 sentimetri á hæð sem er það hæsta í sögu mælinga á leikmönnum á leið inn í NBA-deildina.

Þar með er ekki öll sagan sögð því Tacko Fall er með 249 sentimetra faðm og hann getur teygt sig upp í 310 sentimetra hæð. Karfan er í 305 sentimetrum. Tacko Fall þarf því ekki að hoppa til þess að troða í körfuna.

Tacko Fall er stærri en Boban Marjanović sem hefur vakið mikla eftirtekt í NBA-deildinni síðustu tímabil vegna stærðar sinnar.Fram að þessari mælingu á Tacko Fall um helgina þá hafði Mo Bamba, miðherji Orlando Magic, átt stærsta faðminn en hann mældist 239 sentimetrar árið 2018. Faðmur Tacko Fall er 249 sentimetrar.

Mo Bamba var síðan valinn númer sex í nýliðavalinu 2018. Bamba var með 6,2 stig, 5,0 fráköst og 1,4 varin skot á 16,3 mínútum í leik á sínu fyrsta tímabili með Orlanfo Magic.

Tacko Fall var með 11,0 stig, 7,7 fráköst og 2,6 varin skot á 24,9 mínútum í leik í háskólaboltanum í vetur. Hann nýtt 75 prósent skota sinna.

Tacko Fall hafði vakið athygli fyrr í vetur fyrir það hversu vel hann stóð sig á móti Zion Williamson í úrslitakeppni háskólaboltans.  

Nú verður fróðlegt að sjá hvaða lið velur Tacko Fall í nýliðavalinu í sumar.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.