Körfubolti

Sverrir Þór hættir óvænt með Keflavíkurliðið og Hjalti tekur við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson.
Sverrir Þór Sverrisson. Vísir/Bára
Fljótt skipast veður í lofti í þjálfaramálum Keflvíkinga í karlakörfunni en nú er ljóst að báðir meistaraflokkar félagsins verða með nýja þjálfara á næsta tímabili.

Sverrir Þór Sverrisson verður ekki með Keflavík í Domino´s deild karla í körfubolta á næstu leiktíð eins og áður hafði verið ákveðið en hann þarf að hætta með liðið vegna anna í vinnu.

Hjalti Þór Vilhjálmsson verður þjálfari Keflavíkurliðsins og honum til aðstoðar verður Finnur Jónsson. Finnur hafði áður verið ráðinn aðstoðarmaður Sverris en tilkynnt var um það 8. maí síðastliðinn.

Jón Halldór Eðvaldsson tekur við kvennaliði Keflavíkur af Jóni Guðmundssyni en það var líka tilkynnt 8. maí.

Sverrir Þór Sverrisson þjálfaði Keflavíkurliðið í aðeins eitt tímabil en liðið endaði í fjórða sæti í deildinni og lét KR sópa sér 3-0 út úr átta liða úrslitunum. Sverrir var áður þjálfari kvennaliðs Keflavíkur en hætti með stelpurnar fyrir ári síðan eftir að hafa gert þær að tvöföldum meisturum 2017 og bikarmeisturum 2018.

Hjalti Þór var aðstoðarþjálfari Inga Þórs Steinþórssonar hjá Íslandsmeistaraliði KR í vetur en hann hefur áður þjálfað Fjölni og Þór Akureyri í efstu deild.

Hjalti er einnig eldri bróðir Harðar Axels Vilhjálmssonar sem hefur spilað með Keflavíkurliðinu undanfarin ár.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.