Handbolti

Baráttan um miðana á Selfossi hefst í kvöld: Aðeins 600 geta upplifað drauminn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stemningin verður ævintýraleg á Selfossi.
Stemningin verður ævintýraleg á Selfossi. vísir/vilhelm

Selfoss getur í fyrsta sinn orðið Íslandsmeistari í handbolta annað kvöld þegar liðið tekur á móti Haukum í fjórða leik liðanna í lokaúrslitum Olís-deildar karla klukkan 19.30 í Hleðsluhöllinni á Selfossi. Staðan er 2-1 fyrir Selfoss.

Selfyssingar unnu ótrúlegan sigur í framlengingu á sunnudagskvöldið í Schenker-höllinni að Ásvöllum, 30-32, eftir að lenda 26-21 undir í seinni hálfleik.

Lærisveinar Patreks Jóhannessonar eru nú í þeirri stöðu að geta unnið Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli en Selfoss hefur aldrei unnið titil í handbolta. Síðast lék liðið til úrslita árið 1992

Hleðsluhöllin er ekki stór en hún tekur aðeins 750 manns í sæti. Haukar eiga rétt á 150 miðum og því geta Selfyssingar aðeins selt 600 miða. Forsala miða hefst klukkan 18.00 í kvöld og má búast við alvöru baráttu um miðana.

Selfyssingar segjast geta selt tvöfalt magn miða léttilega en um 1.000 Selfyssingar hafa mætt á útileikina tvo í Hafnarfirðinum. Staðan er þó einfaldlega þannig að ekki nema 600 af 8.000 íbúum bæjarins geta upplifað þennan mögulega draum annað kvöld.

Miðaverðið hefur ekki verið hækkað þrátt fyrir mikla eftirspurn en miðinn á leikinn kostar 2.000 krónur.

Sumir Selfyssingar hafa látið sér það nægja að standa og horfa inn um glerdyrnar við enda stúkunnar og þá hafa aðrir mætt í íþróttahúsið og horft á leikinn á sjónvarpsskjá inn í skólastofum sem eru við salinn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.