Körfubolti

Allt í járnum í Austrinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Lowry var einbeittur og afskastamikill í leiknum í nótt.
Kyle Lowry var einbeittur og afskastamikill í leiknum í nótt. Getty/Frank Gunn
Toronto Raptors jafnaði metin á móti Milwaukee Bucks í nótt með sannfærandi heimssigri og staðan er því 2-2 þegar liðin fara aftur yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Á meðan bíður Golden State Warriors heima í rólegheitum og safnar kröftum fyrir lokaúrslitin sem hefjast eftir átta daga.

Toronto Raptors rétt marði leik þrjú eftir tvær framlengingar en þennan leik vann liðið örugglega 120-102. Toronto liðið var tíu stigum yfir í hálfleik, 65-55.





Kyle Lowry, leikstjórnandi Toronto Raptors liðsins, var maður leiksins en hann skoraði 25 stig. Kawhi Leonard var þreytulegur eftir tvíframlengda leikinn tveimur dögum fyrr en endaði með 19 stig.

„Þetta var eitt af þessum kvöldum þar sem ég vissi að Kawhi væri aðeins takmarkaður og ég varð að stíga fram og vera áræðinn fyrir hann,“ sagði Kyle Lowry eftir leikinn. Hann skoraði 12 af fyrstu 17 stigum Toronto í leiknum.





Kawhi Leonard spilaði í 52 mínútur aðeins tveimur sólarhringum fyrr. „Mér líður vel. Ég ætla að halda áfram og halda áfram að berjast. Við eigum möguleika á að skrifa söguna saman,“ sagði Kawhi Leonard eftir leikinn.

Kawhi Leonard hitti úr 6 af 13 skotum, tók 7 fráköst og stal 4 boltum. Spænski miðherjinn Marc Gasol er líka allur að koma til en hann var með 17 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar í nótt.

Toronto fékk líka frábært framlag frá bekknum sínum því Serge Ibaka var með 17 stig og 13 fráköst, Norm Powell skoraði 18 stig og Fred VanVleet var með 13 stig. Í fyrri hálfleik fékk Raptors liðið 28 stig frá bekknum sínum en Bucks liðið aðeins 6 stig.





Giannis Antetokounmpo skoraði 25 stig og tók 10 fráköst fyrir Milwaukee Bucks og Khris Middleton var með 30 stig. Liðið vann sex leiki í röð í úrslitakeppninni en hefur nú tapað tveimur leikjum í röð.

„Þetta er líklega í fyrsta sinn í úrslitakeppninni þar sem vörnin okkar var hvergi nærri því þar sem hún þarf að vera. Við fengum högg í kvöld. Þeir spiluðu mjög vel,“ sagði Mike Budenholzer, þjálfari Milwaukee Bucks.

„Við verðum að verjast betur. Allir í þeirra liði fannst mér fá að gera það sem þeir vildu. Þetta var allt of auðvelt fyrir þá,“ sagði Khris Middleton.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×