Körfubolti

„Milwaukee hatar Drake“ í fyrirsögn í staðarblaðinu í Milwaukee

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvor er þjálfarinn? Drake og Nick Nurse á hliðarlínunni.
Hvor er þjálfarinn? Drake og Nick Nurse á hliðarlínunni. Getty/Vaughn Ridley
Tónlistamaðurinn Drake hefur verið afar áberandi á hliðarlínunni í leikjum Toronto Raptors í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en núna finnst mörgum hann hafa gengið allt of langt. Ekki síst það fólk sem heldur með liði Milwaukee Bucks.

Toronto Raptors er tveimur sigrum frá því að komast í lokaúrslit NBA deildarinnar í fyrsta sinn þar sem meistarar Golden State Warriors bíða. Milwaukee Bucks vann tvo fyrstu leikina á sínum heimavelli en Toronto náði að nafna með tveimur sigurleikjum á sínum heimavelli.





Þeir sem hafa séð leiki Toronto Raptors í úrslitakeppninni og þekkja ekki allt of vel til gætu ruglast á því hvor væri þjálfari liðsns, Drake eða þjálfarinn Nick Nurse.

Drake stendur oftar en ekki á hliðarlínunni þar sem hann hvetur liðið sitt áfram, gefur leikmönnum fimmur og sást nú síðast nudda axlir þjálfarans í miðjum leik. Hann elskar sviðsljósið og myndavélarnar eru alltaf á honum.

Stuðningsfólk Milwaukee Bucks var ekki mikið að pæla í látalátum Drake þegar lið þeirra var 2-0 yfir í einvíginu en eftir tvö töp í röð eru margir farnir að pirra sig út í hann.

Það er einkum það þegar hann hló hátt þegar Giannis Antetokounmpo, aðalstjarna Milwaukee Bucks, klikkaði á tveimur vítaskotum í síðasta leik. Það má sjá það hér fyrir neðan.





Í framhaldinu er Drake orðinn óvinsælasti maðurinn í Milwaukee og blöðin gera ekkert annað en að ýta undir þá ímynd af honum.

„Milwaukee hatar Drake,“ stóð meðal annars í fyrirsögn Milwaukee Journal Sentinel og þar bætti blaðamaðurinn við: „Maður sem á ekkert í Toronto liðinu en fær engu að síður leyfi til að vera út um allt á vellinum.“

Í greininni er líka sagt frá því að stuðningsfólk Milwaukee Bucks er að reyna að fá tónlist Drake bannaða hjá útvarpsstöðvum á svæðinu.

Leikur númer fimm er í kvöld og mun ráða miklu um það hvort liðið fer áfram. Að þessu sinni er leikið í Milwaukee og því ekki líklegt að Drake þori að láta sjá sig á hliðarlínunni.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×