Sport

Tryggði sér sigur með því að fljúga eins og Súperman í markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Infinite Tucker skutlar sér í markið.
Infinite Tucker skutlar sér í markið. Skjámynd/Instagram/12thman
Það hlýtur að vera von á einhverju góðu frá manni sem ber nafnið Infinite Tucker og svo varð líka raunin um helgina á úrslitamótinu í frjálsum íþróttum í Southeastern háskóladeildinni.

Infinite Tucker tryggði sér þá sigurinn í jöfnu 400 metra grindahlaupi á mjög sérstakan hátt og hefur fyrir vikið öðlast dálitla heimsfrægð á samfélagsmiðlum.

Infinite Tucker er í Texas A&M háskólanum og er meistari í sinni grein eftir frammistöðu sína um helgina.









Infinite Tucker háði mikinn endasprett við liðsfélaga sinn úr Texas A&M sem heitir Robert Grant.

Þeir voru jafnir þegar þeir nálguðust markið en Infinite Tucker átti ás upp í erminni.

Fyrir ári síðan þá varð hann að sætta sig við annað sætið í sama hlaupi og hann ætlaði ekki að láta það koma fyrir aftur.

Infinite Tucker tók því upp á því að skutla sér eins og Súperman í markið. Það bar árangur því hann vann hlaupið á sjónarmun.

Infinite Tucker gaf þá skýringu eftir hlaupið að hann hafi séð móður sína í markinu og hafi hreinlega bara skutlað sér til hennar.

„Ég gaf allt mitt í hlaupið og fannst ég þurfa að nota allan líkamann og dýfa mér yfir marklínuna. Þetta sýndi bara að ég kláraði mig í þessu hlaupi,“ sagði Infinite Tucker eftir hlaupið.

Hér fyrir neðan má sjá þetta frá aðeins öðru sjónarhorni sem og á geggjaðri mynd enn neðar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×