Skoðun
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.

Förum vel með almannafé

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar

Þessa dagana er unnið hörðum höndum við nýtt skipulag Reykjavíkurborgar, vegferð sem við lögðum upp í fyrr á árinu. Markmiðið er að einfalda kerfið en einnig að skýra og skerpa á hlutverkum og ábyrgð innan borgarinnar. Hryggjarstykki breytinganna er að draga fjármálin framar í skipulagi borgarinnar. Það þýðir að allt eftirlit með fjármálum verði eflt og leitað eftir meiri hagkvæmni í öllum okkar innkaupum.

Af hverju er það gert? Jú, okkur er umhugað um að fara vel með fé almennings. Við viljum tryggja að haldið sé eins vel og kostur er utan um hverja þá krónu sem við ráðstöfum fyrir hönd borgarbúa. Íslenskt samfélag kallar á hagsýni. Við höfum í gegnum aldirnar lært að gera mikið úr litlu og þurft að nýta allt sem til fellur því oft hefur verið úr litlu að moða.

Rekstur borgarinnar er í eðli sínu flókinn. Hjá borginni starfa níu þúsund einstaklingar og verkefnin eru mörg. Í flóknum rekstri er góð fjármálastjórn nauðsynleg. Heildaryfirsýn og aðgát í rekstri eru lykilþættir velferðar allra borgarbúa. Tryggja þarf gott eftirlit með innkaupum og framkvæmdum og að hvergi sé krónum kastað á glæ. Við viljum leita allra leiða svo borgin njóti bestu mögulegu kjara við öll innkaup og til að tryggja það að skipulag starfa og reksturs sé framúrskarandi. Með því getum við skilað raunverulegum ábata til borgarbúa í formi bættrar þjónustu og lægri gjalda, til dæmis með lækkun fasteignagjalda, afslætti til eldri borgara og lækkun útgjalda fyrir barnafjölskyldur.

Það var því sérstakt gleðiefni að sjá ársreikning síðasta árs, en þar sést góð afkoma Reykjavíkurborgar vel. Ekki er einungis afgangur frá rekstri borgarinnar heldur skilar borgin, og fyrirtæki í hennar eigu, hagnaði. Stefna okkar að sjálfbærum rekstri, aukinni hagræðingu og niðurgreiðslu skulda er skýr. Slíkur árangur næst með samhentu átaki stjórnmálanna og alls starfsfólks borgarinnar og undirstrikar þann einlæga ásetning okkar að standa vörð um hagsmuni borgarbúa í einu og öllu.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.