Körfubolti

Sextíu ár síðan Ísland spilaði fyrsta landsleik sinn í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrsta landslið Íslands í körfubolta. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Georgsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ingi Gunnarsson, Bogi Þorsteinsson, Ásgeir Guðmundsson, Guðmundur Árnason, Friðrik Bjarnason og Ingólfur Örnólfsson.
Neðri röð frá vinstri: Þórir Arinbjarnason, Ólafur Thorlacius, Birgir Örn Birgis, Ingi Þorsteinsson, Guðni Ó Guðnason,
Þorsteinn Hallgrímsson og Lárus Lárusson, Á myndina vantaði Jón Eysteinsson.
Fyrsta landslið Íslands í körfubolta. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Georgsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ingi Gunnarsson, Bogi Þorsteinsson, Ásgeir Guðmundsson, Guðmundur Árnason, Friðrik Bjarnason og Ingólfur Örnólfsson. Neðri röð frá vinstri: Þórir Arinbjarnason, Ólafur Thorlacius, Birgir Örn Birgis, Ingi Þorsteinsson, Guðni Ó Guðnason, Þorsteinn Hallgrímsson og Lárus Lárusson, Á myndina vantaði Jón Eysteinsson. Mynd/KKÍ

Körfuknattleikssamband Íslands minnist þess í dag að sextíu ár séu liðin síðan að Ísland spilaði sinn fyrsta A-landsleik í körfubolta.

Leikurinn var við Dani og fór fram 16. maí 1959. Íslenska liðið stóð sig vel í leiknum og tapaði naumlega en Danir voru þarna að spila sinn fertugasta landsleik.

„Í dag 16.maí eru 60 ár frá fyrsta landsleik okkar í körfubolta - það er með miklu þakklæti og virðingu sem ég hugsa til þessara miklu eldhuga. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast vel nokkrum þessara einstaklinga og þannig þekkja söguna okkar enn betur,“ skrifaði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ á fésbókarsíðu sína.

Kristinn V. Jóhannsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 10 stig en Þorsteinn Hallgrímsson skoraði sjö stig og Ólafur Thorlacius var með sex stig.

Ingi Þorsteinsson (4 stig), Lárus Lárusson, Þórir Arinbjarnarson, Ingi Gunnarsson (allir 3 stig) og Birgir Örn Birgis (2 stig) komust allir á blað.

Í fyrsta byrjunarliði Íslands voru þeir Kristinn V. Jóhannsson, Ingi Gunnarsson, Lárus Lárusson, Þorsteinn Hallgrímsson og Birgir Örn Birgis. Þeir tveir síðastnefndu, Þorsteinn og Birgir Örn, voru aðeins sextán ára gamlir, og áttu báðir eftir að sitja mikinn svip á íslenskan körfubolta.  

Ingi Gunnarsson og Friðrik Bjarnason náðu því líka að vera í fyrsta Íslandsmeistaraliðinu sjö árum fyrr en þeir hjálpuðu ÍKF, Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar, að vinna titilinn vorið 1952. Ingi var fyrirliði fyrstu Íslandsmeistaranna og líka fyrirliði fyrsta íslenska landsliðsins.

Fyrir tíu árum síðan voru liðsmenn liðsins heiðraðir sérstaklega fyrir landsleik sem þá fór fram í Smáranum og fengu liðsmenn sem áttu heimangengt innrammaða liðsmynd af liðinu.

Í fyrsta íslenska landsliðshópnum voru:

Guðmundur Georgsson - Formaður landsliðsnefndar
Ásgeir Guðmundsson - Þjálfari
Bogi Þorsteinsson - Fararstjóri
Ingólfur Örnólfsson - Flokksstjóri

Kristinn V.Jóhannsson - ÍS
Guðmundur Árnason - KFR
Ólafur Thorlacius - KFR
Birgir Örn Birgis - Ármanni
Guðni Ó Guðnason - ÍS
Þorsteinn Hallgrímsson - ÍR
Jón Eysteinsson - ÍS
Lárus Lárusson - Ármanni
Þórir Arinbjarnason - ÍS
Ingi Gunnarsson - ÍKF
Friðrik Bjarnason - ÍKF
Ingi Þorsteinsson - KFR
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.