Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Selfoss 30-32 | Ótrúleg endurkoma Selfyssinga

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Selfoss er komið í kjörstöðu eftir sigur á Haukum í framlengdum leik á Ásvöllum í kvöld. Leiknum lauk með tveggja marka sigri gestanna, 30-32. Haukar leiddu leikinn nánast frá upphafi og voru með eins marks forystu þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 15-14. 

Leikurinn byrjaði rólegri en oft áður hjá þessum liðum, enn staðan var jöfn eftir fyrsta korterið, 5-5. Eftir það kom góður kafli Hauka sem leiddu með þremur mörkum, 12-9 og fengu tækifæri á að komast í fjögurra marka forystu en gestirnir snéru því við og jöfnuðu leikinn undir lok fyrri hálfleiks, 14-14. Haukarnir náðu síðan inn einu marki áður en fyrri hálfleik lauk og leiddu með einu marki, 15-14, í hálfleik.

Eins og svo oft áður þá mættu Selfyssingar slakir til leiks í seinni hálfleik og misstu leikinn í þrjú mörk, 19-16, þá tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, leikhlé. Eftir það náðu Selfyssingar áhlaupi en ekki nógu góðu til þess að ná forystunni.

Þegar rétt um 10 mínútur voru eftir af leiknum leiddu heimamenn með fimm mörkum, 26-21. Patti tekur þá leikhlé og það skilaði heldur betur árangri. 0-5 kafli frá Selfyssingum fylgdi í kjölfarið og þeir jafna leikinn, 26-26, þegar rétt um 3 mínútur voru til leiksloka. Lokatölur í venjulegum leiktíma var 27-27. 

Það var lítið skorað í fyrri hluta framlengingarinnar, en staðan að henni lokinni var 28-29, gestunum í vil. Selfoss náði öllum tökum á seinni hlutanum og unnu að lokum tveggja marka forystu 30-32. 

vísir/daníel
Af hverju vann Selfoss? 

Lokakaflinn hjá Selfyssingum var hreint út sagt ótrúlegur. Þeir eltu allan leikinn og voru 5 mörkum undir þegar lítið er eftir og sýndu svakalegan karakter að snúa leiknum svona við. Innkoma Sölva Ólafssonar þegar 10 mínútur voru eftir á stóran þátt í þessum sigri ásamt þeirri ákvörðun Patreks að skipta yfir í 7 á 6. 

Hverjir stóðu upp úr?

Heilt yfir var Elvar Örn Jónsson frábær í dag, hann skapaði 9 færi, skoraði 6 mörk og stóð vaktina í vörninni. Atli Ævar Ingólfsson var þó markahæstur með 10 mörk og svo er ekki annað hægt en að hrósa Sölva Ólafssyni sem kom aftur inní markið eftir slaka byrjun og varði gjörsamlega allt, hann var með yfir 53% markvörslu og Haukarnir skoruðu aðeins þrjú mörk á 20 mínútum hjá honum. 

Tjörvi Þorgeirsson var einna bestur í liði Hauka en Brynjólfur Snær Brynjólfsson var atkvæðamestur með 7 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Lokakaflinn hjá Haukum var agalegur og ótrúlegt að sjá hvernig þeirra leikur hrundi gjörsamlega. 

Daníel Þór Ingason, leikmaður Hauka, náði sér ekki á strik í dag, hann skoraði aðeins þrjú mörk. Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður Selfoss, átti erfitt uppdráttar sóknarlega en var mjög góður varnarlega. 



Hvað er framundan?

Staðan er nú 2-1 fyrir Selfossi og geta þeir því tryggt sér Íslandsmeistara titilinn á heimavelli á miðvikudaginn.

Aron Kristjánsson og Gunnar Magnússonvísir/vilhelm
Gunnar: Þetta er ekki búið

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var ósáttur með það hvernig hans menn köstuðu frá sér þeirri forystu sem þeir höfðu komið sér í

„Í stöðunni 26-21 þá hrynur sóknaleikurinn bara. Við fórum ekki í árásirnar og hættum að sækja á markið. Við bara köstuðum boltanum frá okkur og náðum varla skoti á markið.“

Gunnar var afar ósáttur við þessar lokamínútur hjá strákunum eftir að hafa verið í forystu lungað af leiknum köstuðu Haukarnir fimm marka forystu frá sér og skoruðu aðeins eitt mark á síðustu 10 mínútum venjulegs leiktíma

„Ég er mjög svekktur hvernig við fórum inní þennan lokakafla“ 

„Þeir keyrðu á okkur, við komumst ekki í vörn og ég er bara ósáttur við það hvernig við gefum eftir sóknarlega. Við vorum alltof passívir og hleyptum þeim inní leikinn“

Selfoss getur tryggt sér Íslandsmeistara titilinn á miðvikudaginn en Gunnar segir það ekki vera í boði, þeir unnu þarna síðast og ætli sér að gera það aftur

„Þetta er ekki búið, við komum til baka og vinnum þetta. Við höfum gert það áður og ætlum að gera það aftur“ sagði Gunnar að lokum

Patrekur Jóhannesson stýrði Haukum til Íslandsmeistaratitils árið 2015.vísir/vilhelm
Patti: Á svona mómentum erum við helvíti góðir

„Þetta er lygilegt“ voru fyrstu orð Patreks Jóhannessonar, þjálfara Selfoss að leik loknum

„Þetta var ekki að ganga hjá okkur og ég þurfti að prufa eitthvað. Við fórum í 7 á 6 og það kom okkur inní leikinn“

„Við misstum aldrei trú og allan leikinn vorum við vel innstilltir á það að við gætum þetta. Auðvitað var þetta erfitt fimm mörkum undir í stöðunni 26-21 gegn svona góðu liði eins og Haukum en við höldum alltaf í trúna og á svona aðal mómentunum í leiknum þá erum við helvíti góðir“

Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum tekur Patti ákvarðanir sem breyta leiknum. Hann fór að spila 7 á 6, skiptir aftur um markmann og setur Sölva Ólafsson aftur í markið og tekur svo leikhlé í stöðunni 26-21 og fer yfir málin. Eftir þetta var leikurinn Selfyssinga

„Maður er alltaf að tala um leikinn og leikmennina en ef ég tala bara aðeins um mig þá var ég ekki ánægður með mig í síðasta leik. Ég var, eins og alltaf, vel undirbúinn en varð of spenntur og það var ekki þessi jákvæða orka“ 

„í dag vorum við að gefa jákvæða orku, bekkurinn og þeir sem voru ekki að spila líka. Strákarnir sem eru inná þurfa að vinna vinnuna svo að það er eins gott að við séum að gefa þeim jákvæða strauma ekki neikvæða“

„Þetta lið er mest uppbyggt á heimamönnum og stefna liðsins að vera ekki að hrúga einhverjum leikmönnum inní liði svo að ég vil halda í þessa samstöðu og samheldni sem fylgir þessu liði. Það verður gaman á miðvikudaginn, hörku verkefni og við þurfum að ná okkur aftur niður eftir klukkutíma“ sagði Patti sem ætlaði að gefa sínum mönnum klukkutíma til að fagna sigrinum en ná þeim svo strax aftur niður á jörðina meðan þeir keyra yfir heiðina

Á miðvikudaginn er stórt og erfitt verkefni fyrir báða þjálfara, Patti segir að það verði 50/50 leikur þar sem allt getur gerst enda undibúi báðir þjálfarar sig vel núna og finni út hvað megi betur fara fyrir næstu viðureign

„Auðvitað er ég ánægður í dag og Gunni Magg óánæður, en við eigum eitt þrep eftir, það er bara staðreynd að við getum orðið Íslandsmeistarar þá og það þýðir ekkert að hræðast þá staðreynd. Enn ég var þjálfari hérna hjá Haukum í tvö ár og veit hvernig klúbbur þetta er, þeir eru ekki að fara að gefa okkur neitt. Það er bara 0-0 á miðvikudaginn.“ sagði Patti að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira