Handbolti

Stjarnan aldrei unnið oddaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Magnús Þorgeirsson og félagar verða að breyta sögunni ef þeir ætla að komast í undanúrslit.
Ari Magnús Þorgeirsson og félagar verða að breyta sögunni ef þeir ætla að komast í undanúrslit. vísir/bára

Haukar og Stjarnan mætast í eina oddaleik 8-liða úrslita Olís-deildar karla í kvöld.

Deildarmeistarar Hauka unnu fyrsta leikinn á Ásvöllum á laugardaginn, 28-19, en Stjarnan svaraði fyrir sig með sigri í Mýrinni, 33-25, á annan í páskum. Það var fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í 19 ár.

Tölfræðin er ekki beint með Stjörnunni í liði þegar kemur að oddaleikjum í úrslitakeppninni.

Á árunum 1992-2000 fór Stjarnan í sjö oddaleiki um sæti í undanúrslitum en tapaði þeim öllum. Vinni Stjarnan í kvöld kemst liðið í undanúrslit í úrslitakeppni karla í fyrsta sinn.

Stjarnan var oftar en ekki með vel mannað lið á 10. áratug síðustu aldar en var fyrirmunað að stíga yfir þann þröskuld sem 8-liða úrslitin voru.

Þrisvar töpuðu Stjörnumenn oddaleik á heimavelli og fjórum sinnum tókst þeim ekki að klára einvígi þrátt fyrir að vinna fyrsta leikinn í þeim.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, tók þátt í einum þessara oddaleikja. Árið 1994 skoraði hann tíu mörk fyrir Val sem vann Stjörnuna, 24-22, í oddaleik. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna.

Leikur Hauka og Stjörnunnar hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 18:45.Oddaleikir Stjörnunnar í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar:

1992
FH 25-23 Stjarnan

1994
Valur 24-22 Stjarnan

1995
Stjarnan 23-26 KA

1996
Stjarnan 26-27 Afturelding

1997
KA 23-18 Stjarnan

1999
Stjarnan 18-23 FH

2000
Fram 21-20 Stjarnan


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.