Handbolti

Fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í 19 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Dagur átti frábæran leik gegn Haukum í gær. Hann skoraði átta mörk og gaf ellefu stoðsendingar.
Aron Dagur átti frábæran leik gegn Haukum í gær. Hann skoraði átta mörk og gaf ellefu stoðsendingar. vísir/bára

Stjarnan knúði fram oddaleik gegn Haukum í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla með stórsigri, 33-25, í öðrum leik liðanna í Mýrinni í gær.

Sigurinn var vægast sagt langþráður en þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni karla í 19 ár. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í Mýrinni.

Stjarnan knúði fram oddaleik með sigri á Fram, 22-20, í Ásgarði í 8-liða úrslitum efstu deildar 28. mars 2000. Síðan liðu 19 ár fram að næsta sigri í úrslitakeppni hjá Stjörnunni.

Konráð Olavsson var markahæstur Stjörnumanna í leiknum gegn Frömurum fyrir 19 árum með átta mörk. Arnar Pétursson, fyrrverandi þjálfari ÍBV, skoraði sjö mörk. Meðal annarra þekktra leikmanna í liði Stjörnunnar má nefna Birki Ívar Guðmundsson, Eduard Moskalenko, Björgvin Rúnarsson og Hilmar Þórlindsson.

Fram vann oddaleikinn gegn Stjörnunni, 21-20, og tryggði sér sæti í undanúrslitum. Þetta var níunda árið í röð sem Stjarnan féll úr leik í 8-liða úrslitum. Raunar hefur Stjörnunni aldrei tekist að komast upp úr 8-liða úrslitunum frá því úrslitakeppnin var sett á laggirnar.

Stjarnan komst ekki aftur í úrslitakeppnina fyrr en á síðasta tímabili. Þá tapaði liðið, 2-0, fyrir Selfossi í 8-liða úrslitum.

Oddaleikur Stjörnunnar og Hauka fer fram á Ásvöllum annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30. Sigurvegarinn í oddaleiknum mætir Íslandsmeisturum ÍBV í undanúrslitum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.