Körfubolti

Boston náði endurkomusigri og leiðir 2-0

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
Boston Celtics, Milwaukee Bucks og Houston Rockets komust öll í 2-0 í einvígum sínum í 8-liða úrsltium NBA deildanna í körfubolta í nótt.

Boston tók á móti Indiana Pacers í öðrum leik liðanna og var leikurinn jafn og spennandi. Gestirnir frá Indiana tóku forystu snemma leiks en það munaði ekki miklu á liðunum. Jayson Tatum jafnaði svo leikinn þegar annar leikhluti var við það að renna út.

Staðan í hálfleik var 52-50 fyrir Boston en gestirnir tóku aftur yfir í upphafi þriðja leikhluta og komust 12 stigum yfir þegar hann var hálfnaður. Þá gerði Boston áhlaup og í fjórða leikhluta hrundi leikur gestanna. Boston vann fjórða leikhluta 12-31 og leikinn samtals 99-91.

Boston er því komið í tveggja leikja forystu, en fyrsta liðið til þess að vinna fjóra leiki fer í undanúrslitin.

Kyrie Irving skoraði 37 stig fyrir Boston og Jayson Tatum gerði 26. Liðin mætast þriðja sinn aðfaranótt laugardags.

Milwaukee Bucks átti ekki í neinum vandræðum með að sigra Detroit Pistons á heimavelli.

Giannis Antetokounmpo fór fyrir liði Bucks þrátt fyrir villuvandræði í upphafi leiks, hann skoraði 26 stig í 120-99 sigri Bucks.

Heimamenn voru með forystu allan leikinn en gestirnir reyndu að gera áhlaup í fjórða leikhluta. Þeir náðu að minnka muninn niður í sjö stig en lengra fóru þeir ekki og töpuðu að lokum með 21 stigi.

Í Houston fór James Harden enn einu sinni á kostum í tuttugu stiga sigri á Utah Jazz, 118-98. Hann náði sér í tvöfalda þrennu með 32 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar.

Þetta var í þriðja skipti á ferlinum sem Harden nær í þrennu í leik í úrslitakeppninni.

Fyrsti leikurinn endaði með 32 stiga sigri Houston sem virðist hafa gott hald á Utah.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×