Körfubolti

Hvar á borgarstjórinn að sitja? Domino's Körfuboltakvöld kemur til bjargar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur B. Eggertsson bíður spenntur eftir úrslitaeinvíginu í Domino's deild karla enda mætast þar tvö Reykjavíkurlið.
Dagur B. Eggertsson bíður spenntur eftir úrslitaeinvíginu í Domino's deild karla enda mætast þar tvö Reykjavíkurlið. vísir/ernir
Í fyrsta sinn í 35 ára sögu úrslitakeppni karla í körfubolta mætast tvö Reykjavíkurlið í úrslitum; KR og ÍR. KR er í úrslitum sjötta árið í röð en ÍR í fyrsta sinn. ÍR-ingar tryggðu sér sæti í úrslitunum með sigri á Stjörnunni, 79-83, í oddaleik í Ásgarði í gær.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, hrósaði ÍR-ingum á Twitter í gær. Hann hlakkar að vonum til úrslitaeinvígisins sem hefst á þriðjudaginn.





Kjartan Atli Kjartansson bauð Degi að sitja með félögunum í Domino's Körfuboltakvöldi til að koma í veg fyrir að borgarstjórinn þurfi að velja hvorum megin hann eigi að sitja. Kjartan Atli stakk einnig upp á því að Dagur færi yfir leikkerfi liðanna.





Dagur þakkaði boðið. Hann bætti því við að heimavellir liðanna væru þeir mögnuðustu á landinu og á endanum myndi Reykjavík vinna.





KR hefur orðið Íslandsmeistari fimm sinnum í röð og 17 sinnum alls. ÍR hefur 15 sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast árið 1977. Frá því úrslitakeppnin var tekin upp tímabilið 1983-84 hefur ÍR aldrei komist í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

ÍR endaði í 7. sæti Domino's deildarinnar en er búið að slá út liðin sem enduðu í tveimur efstu sætum hennar; Stjörnuna og Njarðvík.

KR lenti í 5. sæti og sló Keflavík og Þór Þ. út á leið sinni í úrslitin. KR hefur leikið sjö leiki í úrslitakeppninni í ár en ÍR tíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×