Innlent

Heiða Björg skipuð for­stjóri Barna­verndar­stofu

Atli Ísleifsson skrifar
Heiða Björg Pálmadóttir.
Heiða Björg Pálmadóttir. Félagsmálaráðuneytið
Heiða Björg Pálmadóttir hefur verið skipuð í embætti forstjóra Barnaverndarstofu. Hún hefur starfað sem yfirlögfræðingur Barnaverndarstofu frá ársbyrjun 2009 og verið settur forstjóri stofunnar í rúmt ár. Auk þess sat hún í barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá 2006-2009.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu kemur fram að Heiða Björg sé með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands frá árinu 2004 og hafi hlotið réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2008. Þá hefur hún stundað doktorsnám við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá 2013

„Frá 2004 starfaði hún sem lögfræðingur, fyrst hjá Tryggingastofnun og síðar hjá umboðsmanni Alþingis áður en hún tók við starfi yfirlögfræðings hjá Barnaverndarstofu. Þá hefur Heiða Björg sinnt stundakennslu í stjórnsýslurétti við Háskólann í Reykjavík og í félagsmála- og fjölskyldurétti við Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn félagsmálaráðherra. Hún annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×