Handbolti

Ómar Ingi stoðsendingakóngur dönsku deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi og félagar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í dag.
Ómar Ingi og félagar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í dag. vísir/getty
Ómar Ingi Magnússon lagði upp langflest mörk allra leikmanna dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Deildarkeppninni lauk í gær.

Ómar Ingi gaf fimm stoðsendingar þegar Aalborg tryggði sér deildarmeistaratitilinn með 28-25 sigri á Kolding. Selfyssingurinn skoraði einnig sex mörk í leiknum. Sveitungi hans, Janus Daði Smárason, skoraði sjö mörk og gaf tvær stoðsendingar.

Ómar Ingi gaf 112 stoðsendingar í dönsku deildinni í vetur. Næsti maður á lista, Lukas Karlsson hjá Ribe-Esbjerg, gaf 88 stoðsendingar. Ómar var með 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Auk þess að vera stoðsendingakóngur dönsku deildarinnar var Ómar Ingi í 9. sæti yfir markahæstu leikmenn hennar. Hann skoraði 129 mörk, þar af 23 úr vítaköstum. Anders Eggert, leikmaður Skjern, var markahæstur með 171 mark.

Ómar Ingi er á sínu fyrstu tímabili hjá Aalborg en hann kom til liðsins frá Århus síðasta sumar.

Ómar Ingi er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Norður-Makedóníu í tveimur leikjum í undankeppni EM 2020 síðar í vikunni. Eftir landsleikjahléið hefst svo úrslitakeppnin um danska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×