Skoðun

Hvar eiga "rafíþróttir“ heima?

Viðar Halldórsson skrifar
Í síðustu viku var samþykkt í Borgarstjórn Reykjavíkur – þvert á flokka - að vísa til menningar- íþrótta- og tómstundasviðs borgarinnar tillögu þess efnis að innleiða svokallaðar rafíþróttir í starf allra íþróttafélaga í Reykjavík. Þrjú íþróttafélög hafa þegar riðið á vaðið með slíka innleiðingu og mörg önnur hyggjast gera slíkt hið sama.

Tilgangurinn með því að taka tölvuleikjaspilun inn í íþróttafélögin er göfugur. Það er mjög brýnt verkefni að rjúfa einangrun og kyrrsetu barna sem fest hafa í vef tölvuleikjaspilunar og löngu tímabært er að setja mál þessara barna og ungmenna á oddinn. Það er aftur á móti einnig brýnt að það fari fram umræða um hver á að taka að sér það verkefni og á hvaða forsendum. Sú umræða virðist þó hafa verið af ansi skornum skammti.

Það efast enginn um mikilvægi þess að virkja þennan hóp tölvuleikjaspilara sem áður er nefndur til samfélagslegrar þátttöku. En hvar eiga „rafíþróttir“ heima? Ég set spurningamerki við það að þær eigi best heima í íþróttafélögunum, eins og nú er lagt upp með. Fyrst og fremst á þeim forsendum að „rafíþróttir“ eru ekki íþróttir í eðli sínu - þrátt fyrir að framleiðendur tölvuleikja hafið ýtt undir þá nafngift athæfisins. Lög ÍSÍ greina til dæmis skýrt til um það að íþróttir þurfi að fela í sér einhvers konar líkamlega þjálfun með keppni eða heilsurækt að leiðarljósi. Því fer fjarri í tilfelli tölvuleikjaspilunar sem einkennist öllu frekar af kyrrsetu og hreyfingarleysi en ræktun líkamlegs atgervis. Það er nú einmitt sjálf tölvuleikjaspilunin sem hefur skapað þann vanda sem íþróttahreyfingin á nú að leysa. Enn fremur virðast sumir þeirra tölvuleikja sem spilaðir eru í þessu samhengi ganga út á ofbeldi og ganga því þvert gegn grundvallargildum íþróttahreyfingarinnar.

Með öðrum orðum, þá samræmast svokallaðar rafíþróttir hinum hefðbundunu íþróttum ekki með neinum hætti og þó að athæfið feli í sér keppni þá gerir það þær ekki sjálfkrafa að íþrótt. Enda er keppt í listum, stærðfræði og matseld og dettur engum í hug að skilgreina slík athæfi sem íþróttir. Af hverju þá tölvuleikjaspilun?

Ástæðurnar fyrir því að hinar svokölluðu rafíþróttir eru að smokra sér inn í íþróttahreyfinguna kunna að vera margar. Ein ástæða í hinu stóra samhengi málsins byggir á áhuga markaðsaflanna á að tengjast íþróttum. Fyrirtæki á tölvuleikjamarkaði (sem eiga til að mynda einkaleyfarétt á þeim leikjum sem spilaðir eru) sjá hag sinn í því að fá tölvuleikjaspilun inn í íþróttafélögin en þar öðlast þessir leikir frekari vinsældir (sem skapa þessum fyrirtækjum tekjur) og einnig gefur það spilun tölvuleikja ákveðið „lögmæti“ sem gott og uppbyggilegt athæfi í augum borgaranna – sem er alla jafna ekki sú ímynd sem langtíma tölvuleikjaspilun hefur meðal fólks. Ávinningur þessara fyrirtækja er því mikill. Góðar viðtökur íþróttafélaganna við innviklun tölvuleikjaspilunar litast svo kannski fyrst og fremst af tvennu. Í fyrsta lagi þá hefur verið spilað inn á samvisku íþróttasamfélagsins, sem hefur haft það orð á sér að sinna mikilvægu uppeldishlutverki, um að það geti ekki látið þau ungmenni sem búa við kyrrsetu og félagslega einangrun afskiptalaus. Íþróttafélögin virðast því vera viljug til að taka þessi ungmenni uppá sína arma með því að gera þeim kleift að æfa tölvuleikjaspilun innan sinna vébanda og rjúfa þannig félagslega einangrun þeirra. Í öðru lagi þá kunna jákvæðar móttökur íþróttafélaganna að einhverju leyti að ráðast af gróðasjónarmiðum þar sem þau líta til nýrra tekna af mótahaldi og afreksmennsku í kringum tölvuleikjaspilun, sem og innkomu frá styrktaraðilum sem alla jafna hafa ekki haft hag í að tengjast íþróttum með afgerandi hætti.

En er það í verkahring íþróttahreyfingarinnar að leysa alls kyns félagsleg vandamál samfélagsins sem hafa jafnvel ekkert með íþróttir að gera? Samkvæmt lögum ÍSÍ þá á íþróttahreyfingin fyrst og fremst að sinna íþróttastarfsemi og er því vandséð að það sé í verkahring, nú eða í anda íþróttanna, að standa fyrir kyrrsetuspilun ungs fólks á tölvuleikjum, hvað þá ofbeldis- og drápsleikjum? Þvert á móti þá gengur sú iðkun gegn grunngildum íþróttanna sem endurspeglast gjarnan í orðatiltækinu „heilbrigð sál í hraustum líkama“.

Framangreind tillaga að færa tölvuleikjaspilun inní íþróttafélögin myndi skapa ákveðið fordæmi og bjóða þeirri hættu heim að smátt og smátt útvatnist sérstaða og gildi íþróttanna. Stjórnvöld eru þó eflaust afar sátt við að einhver vilji taka þetta verðuga og brýna verkefni að sér og því virðist vera einbeittur vilji sumra í íþróttahreyfingunni að reyna að láta tölvuleikjaspilun einhvern veginn passa inní íþróttahreyfinguna, sem er að vissu leyti virðingarvert en að sama skapi ansi langsótt. Aftur á móti þá hefur nánast engin almenn umræða farið fram um það hvort íþróttahreyfingin sé best til þess fallin að bjóða upp á spilun tölvuleikja innan sinna raða eða hvort slík tómstundaiðja eða keppnismennska eigi kannski betur heima meðal annarra aðila sem koma að málefnum barna og ungmenna, eins og skólanna, félags- og frístundamiðstöðva, nú eða bara innan sérstakra tölvuleikjafélaga. Áður en lengra er haldið er brýnt að staldra við og taka þá umræðu. 

Höfundur er dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×