Skoðun

Rétt­mæti virðingar á skóla­skyldu?

Edda Sigrún Svavarsdóttir skrifar

Þann 20. nóvember síðastliðinn skrifar Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, pistil þar sem hún lýsir yfir áhyggjum sínum af virðingarleysi foreldra gagnvart skólaskyldu og að foreldrar taki leyfi í gríð og erg til að geta sólað sig á baðströndum Tenerife.

Ég tek undir með Katrínu að mikilvægt er að virðing ríki fyrir skólaskyldu barna, en eins og í hjónabandi þarf virðing að vera gagnkvæm svo hægt sé að tala um að slíkt sé ríkjandi. Ef rýna á í fjarvistir nemenda frá lögbundinni skólaskyldu er mikilvægt að þeir sem veita slíka þjónustu séu einnig teknir til skoðunar. Hjá nemanda sem sækir lögbundna þjónustu frá Reykjavíkurborg eru aðeins skráð inn veikindi og leyfi í hans skólaferli.

Hvað með forföll í kennslu barna?

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Skóla- og frístundarsviði Reykjavíkurborgar eru engar verkreglur um hvernig tilkynna eigi forráðamönnum forföll í kennslu. Ég á barn á unglingastigi sem sækir lögbundna þjónustu frá Reykjavíkurborg og á þeim 14 vikum sem liðnar eru af þessu skólaári hafa 30 kennslustundir fallið niður. Upplýsingar um forföll í kennslu hjá mínu barni þurfti sérstaklega að taka saman eftir að ég óskaði eftir þeim. Þær upplýsingar sem ég fékk frá stjórnendum skólans eru að þau hafi óskað eftir fjármagni til þess að mæta þessum forföllum í kennslu, en hefði verið hafnað á rökum sparnaðar.

Katrín Sigríður hefur óskað eftir því að Mennta- og barnamálaráðuneytið skoði sérstaklega svart á hvítu tölfræði fjarvista hjá nemendum yfir skólaárið. Mér þætti vænt um að einnig væru skoðuð forföll í kennslu í skólum svo hægt sé að rýna í virðingu gagnvart skólakerfinu með tölfræðilega réttmætum hætti.

Höfundur er móðir og kennari.




Skoðun

Sjá meira


×