Erlent

Gætu boðið Bretum frestun á út­göngu til 22. maí

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel fyrr í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel fyrr í dag. Getty
Evrópusambandið gæti boðið Bretum að fresta útgöngu sinni úr sambandinu til 22. maí næstkomandi, að því gefnu að breska þingið samþykkti útgöngusamninginn í næstu viku.

Þetta kemur fram í drögum að samþykkt leiðtogaráðs ESB sem fundar nú í Brussel. BBC segir frá því að í drögunum komi fram að ekki sé mögulegt að fresta útgöngunni fram yfir kosningarnar til Evrópuþingsins sem fram fara 23. til 26. maí.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, óskaði formlega eftir því í gær að útgöngu Bretlands yrði frestað um þrjá mánuði, eða til 30. júní, þar sem breska þingið hafi enn ekki staðfest sáttmálann. Til þessa hefur verið miðað við að Bretland myndi ganga úr sambandinu klukkan 23 að kvöldi 29. mars.

Ræddi við aðra leiðtoga ESB-ríkja

Fréttamaður BBC segir að May hafi rætt við aðra leiðtoga aðildaríkja ESB í um níutíu mínútur í dag og ítrekað verið spurð hvernig hún myndi bregðast við ef breskur þingheimur myndi fella útgöngusamninginn í þriðja sinn.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sagt að Bretland muni ganga úr sambandinu án samnings, felli breska þingið útgöngusamninginn á ný.

May ávarpaði þjóð sína frá Downingstræti í gærkvöldi þar sem hún varpaði ábyrgðinni á herðar þingmanna að enn hafi ekki tekist að leysa úr málum er varða útgönguna. Sagðist hún skilja afstöðu afstöðu almennings sem hafi fengið sig fullsaddan af karpi stjórnmálamanna um Brexit. Þá sagðist hún ekki vilja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar sem breska þjóðin hafi nú þegar sagt sína skoðun.


Tengdar fréttir

Þingmenn bálreiðir út í May

Theresa May forsætisráðherra Breta situr nú undir harðri gagnrýni, ekki síst frá hennar eigin flokksmönnum, eftir ræðu sem hún flutti til bresku þjóðarinnar í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×