Handbolti

Svíar ráða norskan landsliðsþjálfara

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Solberg í leik með Flensburg gegn Kiel. Til varnar er Nikola Karabatic.
Solberg í leik með Flensburg gegn Kiel. Til varnar er Nikola Karabatic. vísir/getty
Sænska handknattleikssambandið hefur fundið arftaka Kristjáns Andréssonar með landsliðið og það kemur talsvert á óvart að þeir skuli hafa fundið hann í Noregi.

Sænska sambandið hefur nefnilega náð samkomulagi við Norðmanninn Glenn Solberg um að taka við liðinu. Hann mun taka við eftir EM í janúar á næsta ári. Hann samdi til ársins 2024.

Kristján er að fara að taka við þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen og ákveður því að stíga til hliðar sem þjálfari sænska liðsins.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet þá komu Svíarnir Magnus Andersson og Martin Boquist einnig til greina í starfið en Solberg hlaut hnossið. Boquist hefur verið aðstoðarþjálfari Kristjáns og mun einnig aðstoða Solberg.

Solberg var aðstoðarþjálfari norska landsliðsins frá 2015-16 og hefur þjálfað norska liðið St. Hallvard frá árinu 2015.

Hann átti frábæran feril sem leikmaður þar sem hann spilaði meðal annars með Flensburg og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×