Handbolti

Ómar Ingi kominn yfir 100 stoðsendingar og verður ekki felldur af toppnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ómar Ingi Magnússon fer á kostum með Álaborg.
Ómar Ingi Magnússon fer á kostum með Álaborg. vísir/getty
Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta, er kominn yfir 100 stoðsendingar fyrir lið sitt Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni en hann trónir á toppnum yfir stoðsendingahæstumenn deildarinnar með 102 slíkar í 24 leikjum eða 4,25 að meðaltali í leik.

Það er morgunljóst að Ómar Ingi mun enda deildarkeppnina í Danmörku sem stoðsendingakóngur tímabilsins því næsti maður, Morten Nyberg hjá TMS Ringsted, er 19 stoðsendingum á eftir Ómari með 83 stykki þegar að liðin eiga aðeins einn til tvo leiki eftir.

Hægri skyttan frá Selfossi hefur spilað frábærlega fyrir Álaborgarliðið sem er í öðru sæti deildarinnar með 37 stig, stigi á eftir GOG en á leik til góða og er því með deildarmeistaratitilinn í sínum höndum.

Ómar Ingi er einnig 13. markahæsti leikmaður deildarinnar með 114 mörk og 64 prósent skotnýtingu en hann er einnig búinn að skora úr 20 af 25 vítaköstum sínum á tímabilinu.

Janus Daði Smárason leikur einnig með Álaborgarliðinu og þá er Arnór Atlason aðstoðarþjálfari þess en saman urðu þeir bikarmeistarar á dögunum og geta á næstu dögum bætt deildarmeistaratitlinum í safnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×