Körfubolti

Arnar Guðjóns: Óli Óla er algjörlega óþolandi

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Arnar var kátur eftir leik
Arnar var kátur eftir leik vísir/bára
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnumanna var að vonum kampakátur með sigur sinna manna á Grindvíkingum í kvöld. Sigurinn þýðir að Stjarnan er komið í undanúrslit Dominos-deildar karla.

 

„Þetta var rosalega erfiður leikur. Grindvíkingar eru með mannskap sem eru búnir að standa sig stórkostlega í þessari seríu, eru með kreatívt þjálfaralið. Allir búnir að tala um að þetta sé eitthvað lið sem er í endalausum krísum. Það er barátta og vilji í þessu liði, menn eins og Ólafur Ólafsson sem er algjörlega óþolandi. Hrikalega duglegir. Kredit á þjálfarateymið þeirra.“

 

Ömurlegt atvik átti sér stað undir lok leiksins þegar óprúttinn stuðningsmaður Grindavíkur grýtti peningum inn á völlinn og lentu þeir í Antti Kanervo, leikmanni Stjörnunnar. Peningarnir skoppuðu þaðan til Arnars, sem tók þá upp, labbaði inn á völlinn og sýndi dómurum leiksins peningana. Síðan gekk hann aftur útaf og klappaði kaldhæðnislega til stuðningsmanna Grindavíkur. Ljótt atvik. Arnar var hins vegar stuttorður um þetta atvik eftir leik og hafði hann þetta að segja þegar hann var spurður hvort hann vildi tjá sig um það:

 

„Nei.“

 

Mjótt var á munum allan leikinn og voru það Grindvíkingar sem leiddu í hálfleik. Arnar breytti þá aðeins til í leik sinna manna og fannst hann það vera sem skildi liðin að í lok leiks.

 

„Við breyttum aðeins í hálfleik og mér fannst það ganga vel.“

 

Mikil keyrsla hefur verið á leikmönnum síðustu daga og ætla Stjörnumenn að taka sér frídag fyrir undanúrslitin. Vinni Tindastóll og Njarðvík sína leiki, munu Stjarnan mæta KR-ingum í undanúrslitum.

 

„Við ætlum að taka frídag á morgun og svo sjáum við til á sunnudag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×