Erlent

Mannræningi fékk á baukinn í karatestúdíó

Sylvía Hall skrifar
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa elt konuna í karatestúdíó.
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa elt konuna í karatestúdíó. Skjáskot/CNN
Ung kona flúði inn í karatestúdíó á fimmtudagskvöld eftir að maður hafði reynt að þröngva henni inn í bíl sinn í Charlotte í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. CNN greinir frá. 

Þjálfari í karatestúdíóinu segir konuna hafa hlaupið inn í stúdíóið og tjáð viðstöddum að það væri maður á eftir henni sem ætlaði sér að meiða hana. Enn voru nokkur börn á svæðinu að bíða eftir því að verða sótt sem og starfsmenn að undirbúa lokun.

Stuttu síðar kom „stór maður“ inn. Starfsmenn gerðu ráð fyrir því að hann ætlaði að spyrjast fyrir um karatetíma en svo var ekki. „Ég spurði hvernig við gætum aðstoðað og hann sagðist vera að leita að konunni. Hún sagðist ekki þekkja hann og að hann hafi reynt að ræna henni,“ sagði þjálfarinn.

Starfsmenn báðu manninn vinsamlegast að fara en hann sagðist ekki ætla að fara neitt. Hann fór að haga sér á ógnandi hátt, bæði í garð starfsmanna og lögregluþjóna, sem varð til þess að þjálfarinn þurfti að verja sig með þeim brögðum sem hann kunni.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús eftir atvikið en ekkert er vitað um ástand hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×