Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur 74-76 | Valur marði sigur í Vesturbæ

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð.
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð. vísir/bára
Valur vann KR í Dominosdeild kvenna í DHL-höllinni í kvöld, 74-76. Leikurinn var æsispennandi og liðin skiptust oft og mörgum sinnum á forystunni. KR gat jafnað leikinn á lokasekúndunum en Hildur Björg klikkaði á vítaskoti á ögurstundu og því fór sem fór.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að hvorugt lið ætlaði að leyfa hinu að fá auðveldar körfur, hvort sem það var undir körfunni eða fyrir utan þriggja stiga línuna. Baráttan á milli Dani Rodriguez og Kiönu Johnson í leikstjórnandanum var mögnuð sem og baráttan inni í teig milli Hildar Bjargar og Helenu.

KR-ingar tóku forystuna í þriðja leikhluta en Valur náði að taka forystuna aftur fyrir lokaleikhlutann og komust aðeins of langt fram úr heimaliðinu í byrjun lokafjórðungsins. KR herti sig og náðu glæsilegu 13-0 áhlaupi á fimm mínútna kafla en misstu á lokamínútunni frákast til Kiönu Johnson sem að þakkaði fyrir sig með körfu til að komast aftur fram úr KR. Heimastúlkur gátu ekki sett körfu í næstu sókn og urðu að brjóta á Sylvíu Rún, sem blessunarlega hitti aðeins úr einu vítaskoti af tveimur. Hildur Björg fékk gott tækifæri til að jafna leikinn á vítalínunni hinum megin en gat aðeins sett eitt skot. Því fór sem fór, 74-76 fyrir Val.

Af hverju vann Valur?

Valur voru nálægt því að missa leikinn frá sér í lokafjórðungnum þegar að KR tók áhlaup á lokamínútunum en með hörkuspili (og smá heppni) náðu þær rauðklæddu að setja mikilvægustu körfurnar undir lokin og innsigla sigurinn. Í nærri því fimm mínútur skoruðu Valsarar ekki stig á meðan að KR setti 13 stig og tók eins stig forystu. Þá steig Kiana Johnson upp og kom Völsurum aftur yfir með einu stigi og KR-ingar gátu ekki jafnað leikinn frá vítalínunni á lokasekúndunum.

Bestu leikmenn vallarins

Kiana Johnson og Helena Sverrisdóttir voru mikilvægastar fyrir Valsara í kvöld, en þær skoruðu 22 og 21 stig fyrir gestina og það sem meira var, þær skoruðu mikilvægu körfurnar á mikilvægum stundum.

Hildur Björg Kjartansdóttir var langbest fyrir KR í kvöld og minnstu munaði að hún kláraði leikinn fyrir þær svarthvítu. Hildur skoraði 17 stig, tók 13 fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og varði þrjú skot. Frábær leikur sem endaði þó ekki með sigri hennar liðs.

Tölfræði sem vakti athygli

Bæði lið hittu hrikalega fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld, hvorugt þeirra skaut yfir 30% í þristum.

Hvað gekk illa?

KR-ingar misstu Valsstúlkur aðeins of langt frá sér í byrjun lokafjórðungsins og þurftu því að eyða mikilli orku í að ná upp forskotinu sem að Valur hafði byggt sér. Þær hittu heldur ekki nógu vel fyrir utan þriggja og gáfu heldur mikið af stigum inni í teig.

Hvað næst?

Valur fær næst annað stórlið í heimsókn til sín, en þær taka á móti Keflvíkingum. Keflavík var einni körfu frá því að vinna KR á sínum heimavelli og gætu alveg reynst Valsstúlkum erfiðar ef þær mæta rétt stemmdar.

KR mun næst halda til Borgarnes til að reyna sækja sigur gegn Skallagrím.

Darri Freyr: Þetta bara datt okkar megin í dag

Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, var skælbrosandi í lok risaleiks milli KR og Vals í Vesturbænum í DHL-höllinni. Leikurinn var jafn fram á lokasekúndurnar en Valur tók sigurinn að lokum, 74-76.

Á lokamínútunni gat niðurstaðan fallið á báða bóga en Darri hafði ekki allt of miklar áhyggjur. „Mér leið vel, treysti stelpunum til að klára svona aðstæður. Töluðum um það fyrir leikinn að hvernig sem að þetta færi af stað þá viljum við vera liðið sem er að vinna á lokakaflanum,“ sagði Darri og Valur náði vissulega að klára leikinn á lokametrunum.

„Þetta var leikur sem hefði getað farið á báða vegu. Við vorum taktískt mjög lélegar en náðum að koma okkur aftur inn í leikinn með frekju og látum. Þetta bara datt okkar megin í dag,“ sagði hann.

Hildur Björg Kjartansdóttir tók yfir í lokafjórðungnum og spilaði næstum því óaðfinnanlega á báðum endum vallarins. Hún stöðvaði Helenu á mikilvægum stundum á lokamínútunum en Darri var ekki að stressa sig á því. „Það getur engin slökkt á Helenu, en Hildur spilaði frábæra vörn, eins og við var að búast af atvinnumanni eins og Hildur er. Við vitum að hún er einn af okkar allra bestu leikmönnum, þannig að þetta kemur ekkert á óvart,“ sagði Darri og sparaði ekki hrósið í garð Hildar.

Darri var strax byrjaður að velta fyrir sér hvernig liðið hans gæti takmarkað sterkt sóknarlið KR-inga og ætlaði sér að vinna næsta leik með öruggari hætti. „Við reynum kerfisbundið að draga úr því sem KR er að gera og finna betri lausnir sóknarlega okkar megin,“ sagði hann og vísaði þar í að Valur skoraði 103 stig að meðaltali í sínum fyrstu tveim leikjum en gat aðeins skorað 76 í þessum stórleik.

Bæði lið voru að berjast í leiknum og það sést kannski best á því að margir leikmenn þurfti á einhverjum tímapunkti að yfirgefa leikinn í mislangan tíma vegna meiðsla. „Nærri því engin er heil eftir svona leik. Þetta var eiginlega algjört rugl á köflum,“ sagði Darri en dómarar leiksins áttu í fullu fangi með að dæma þennan leik.

„Það voru bara allar að leggja sig fram og vilja ógeðslega mikið vinna,“ sagði Darri um keppnisskap liðanna í leiknum og bætti við að það væri geggjað að fá svona spennuleik í byrjun tímabilsins. „Ég ætla að ábyrgjast að við höfum ekki fengið svona leik áður í 3. umferð deildarinnar!“ sagði Darri og var strax farinn að pæla í næsta leik gegn þessu þrælsterka liði KR.

Benni Gumm: Tvö sterk lið að taka á hvert öðru

Benedikt Guðmundsson vissi ekki alveg hvernig honum átti að líða eftir háspennuleikinn sem að KR og Valur buðu upp á í Vesturbænum í kvöld. Valur hafði betur eftir æsilegar lokamínútur, 74-76. „Ég er bara beggja blands. Slæm tilfinning en ágætis tilfinningar inn á milli. Alltaf vont að tapa og við töldum okkur vera að vinna þennan leik,“ sagði Benni eilítið dolfalinn strax eftir leik.

KR og Val var spáð tveimur efstu sætunum í deildinni fyrir tímabilið og miðað við þennan leik þá virðast þau ætla að standa undir væntingum. „Já, tvo sterk lið að taka á hvert öðru,“ sagði Benni, enda var leikurinn mjög harður á köflum og hvorugt lið gaf nokkuð eftir í baráttunni.

„Ekki auðveldur leikur að dæma,“ sagði Benni og var ekki ánægður með dómgæsluna í leiknum. „Ekki valhoppandi yfir dómgæslunni, en bara áfram gakk. Eitt skot til eða frá, eða ein tæknivilla til eða frá. Næsti leikur.“

Benni Gumm var heldur ánægðari með þennan leik hjá KR-ingum en þann seinasta sem að var spilaður í DHL-höllinni í 1. umferðinni. „Þær mættu með hörkuna, ólíkt fyrsta heimaleiknum hérna gegn Keflavík. Við þurfum bara að skjóta boltanum betur fyrir utan, þegar það kemur verðum við helvíti góðar,“ sagði hann að lokum.

Helena: Rosa samkeppni í Vesturbænum

Helena Sverrisdóttir var sátt eftir þrautasigur á KR í DHL-höllinni í kvöld, en Valsliðið hennar vann 74-76.

Helena fór út af á lokasekúndum leiksins eftir að hún fékk sína fimmtu villu og sendi Hildi Björgu Kjartansdóttur á vítalínuna með tækifæri á að jafna leikinn. „Mér leið illa þegar ég heyrði að ég ætti að brjóta. Hélt að við værum þremur stigum yfir. Eitthvað sem að ég átti ekki að klikka á, að setja Hildi á línuna og fara út af með fimmtu,“ sagði hún, en Hildur klikkaði á öðru vítinu og Valur slapp með sigur. „Mér leið ekki vel með Hildi á línunni og ég út af með fimmtu villuna,“ sagði Helena um lokasekúndurnar.

Það var mikil barátta í leiknum og Helena þurfti að taka á stóra sínum til að hafa í við Hildi Björgu, sterkan framherja KR. „Ógeðslega krefjandi leikur. Miklar snertingar og höld og fleira leyft,“ sagði hún en leikmenn í baðum liðum urðu að yfirgefa völlinn í lengri eða styttri tíma vegna skruðnings og stimpinga. „Þetta er bara partur af leiknum og maður verður að lifa með þessu,“ sagði Helena og virtist ekki kippa sér mikið upp við þessu.

Þessi leikur sýndi að KR og Valur eiga í vændum stóra leiki í deildinni og Helenu hlakkar til. „Ég held að þetta verði rosa samkeppni í Vesturbænum og við vissum að þetta yrði svona. Gaman að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Helena, þreytt en ánægð með góðan sigur á erfiðum útivelli.

Unnur Tara: Erum enn að slípa okkur saman.

Unnur Tara Jónsdóttir var ekki ánægð eftir naumt tap gegn Val í DHL-höllinni, en KR tapaði leiknum á lokasekúndunum, 74-76.

„Mér líður alltaf vel í svona hörkuleik, finnst gaman að slást inni á vellinum,“ sagði Unnur en dómarar leyfðu mikla baráttu í leiknum.

Í lokafjórðungnum gerðist það leiðinlega atvik að Sóllilja Bjarnadóttir fór upp í frákastabaráttu við Helenu Sverris og lenti illa. Unnur Tara hljóp til eftir að liðsfélaginn meiddist og vildi fá að fara inn á völlinn til að aðstoða, enda er hún læknir. Þegar hún baði um að fara inn á völlinn uppskar hún hins vegar tæknivillu.

„Ég spurði hvort ég mætti fara inn á völlinn, hann sagði nei og ég sagðist ætla að spyrja annan dómara. Þetta er læknaiðrun og þú verður að hjálpa fólki í neyð og ég trúi eiginlega ekki að að þetta sé löglegt það sem að hann gerði,“ sagði Unnur og bar Ísaki Erni dómara ekki vel söguna. „Ég hjálpa öllum sem eru meiddir og á bara mjög erfitt með að trúa þessu,“ sagði hún og var augljóslega leið með meiðsl Sóllilju. „Hún er á leið upp á slysó og gæti verið brotin.“

Hildur Björg Kjartansdóttir var frábær í leiknum og þær tvær skiptust á að reyna að hemja Helenu Sverris og stöðva hana inn í teig. „Það er geggjað að spila með Hildi. Hún stóð sig mjög vel og var hörkudugleg í vörninni. Fínt að geta skipt þessu svona á milli okkar,“ sagði Unnur um verkaskiptinguna undir körfunni.

Unnur Tara lét tapið ekki draga allt of mikið úr sér og taldi að KR væri ekkert síðri en Valur. „Klárlega, við erum enn að slípa okkur saman. Þær hafa spilað fleiri leiki en við,“ sagði hún en eins og áður hefur komið fram spilaði KR enga æfingaleiki á undirbúningstímabilinu þrátt fyrir að vera með mjög nýjan hóp. Unnur Tara var viss um að þær myndu læra af þessu tapi og að þær svarthvítu ættu helling inni. „Við stefnum bara á að vinna hvern einasta leik,“ sagði hún að lokum og fór að ræða við liðsfélaga sína eftir naumt tap á heimavelli KR-inga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira