Erlent

Tíu hafa látist í mótmælum í Níkaragva

Sylvía Hall skrifar
Mótmælendur segja óeirðalögreglu hafa átt upptökin að ofbeldisfullum aðgerðum.
Mótmælendur segja óeirðalögreglu hafa átt upptökin að ofbeldisfullum aðgerðum. Vísir/AFP
Tíu hafa látist í hörðum mótmælum í Níkaragva vegna breytinga stjórnvalda á almannatryggingakerfinu þar í landi. Mótmælin eru þau mannskæðustu þar í landi frá því að forsetinn Daniel Ortega tók við embætti árið 2007.

Mótmælin hófust á miðvikudag í höfuðborginni Managua þegar lífeyrisþegar komu saman á götum borgarinnar til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum sem fela í sér skerðingu á ellilífeyri og hækkun á iðgjöldum launþega. Á fimmtudag bættust námsmenn og vinnandi fólk í hópinn og færðist aukin harka í mótmælin, en um hundrað manns hafa slasast. Talið er að námsmenn séu leiðandi afl í mótmælunum.

Frá því á miðvikudag hefur verið lokað fyrir útsendingar þriggja sjónvarpsstöðva sem sýndu beint frá mótmælunum og hafa þátttakendur sagt óeirðalögregluna hafa átt upptökin að ofbeldisfullum aðgerðum. 

Rosario Murillo, varaforseti landsins og eiginkona forsetans, hefur líkt mótmælendum við vampírur sem leitast eftir blóði í von um að styrkja málstað sinn. Ríkisstjórnin þar í landi hefur sagt mótmælendur hafa kveikt í opinberum byggingum og skapað óeirðir víða í landinu í kjölfar mótmælanna, sem ekki sér fyrir endann á.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.