Erlent

Einn árásarmannanna í París fyrir dóm í Belgíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Grímuklæddir lögreglumenn leiddu Abdeslam inn í dómsal og höfðu á honum góðar gætur.
Grímuklæddir lögreglumenn leiddu Abdeslam inn í dómsal og höfðu á honum góðar gætur. Vísir/AFP
Salah Abdeslam, eini árásarmaðurinn sem lifði hryðjuverkaárásina í París í nóvember árið 2015, kom fyrir dómara í Belgíu í dag. Hann neitaði að svara spurningum en málið varðar skotbardaga við lögreglu þegar hann var handtekinn í Brussel í mars 2016.

Alls létust 130 í hryðjuverkaárásinni í París og þrjátíu og tveir til viðbótar í árás í Brussel nokkrum dögum síðar. Saksóknarar í Frakklandi telja að Abdeslam hafi leikið lykilhlutverk í árásunum. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC er ekki talið líklegt að réttað verði yfir honum í Frakklandi fyrr en árið 2020 í fyrsta lagi.

Í málinu sem tekið var fyrir í dag er Abdeslam ákærður fyrir tilraun til morðs fjórum mánuðum eftir árásina í París. Abdeslam og tveir aðrir grunaðir menn földu sig í íbúð þegar lögreglumenn komu þangað við hefðbundna leit.

Til skotbardaga kom þar sem þrír lögreglumenn særðust og einn grunuðu mannanna féll. Abdeslam var handtekinn nokkrum dögum síðar í Molenbeek-hverfi Brussel.

Hann hefur neitað að ræða við rannsakendur síðan og hélt hann uppteknum hætti fyrir dómi í dag. Neitaði hann jafnframt að láta taka myndir eða myndbönd af sér í réttarsal.

Búist er við því að réttarhöldin yfir Abdeslam taki fjóra daga. Um tvö hundruð vopnaðir lögreglumenn gæta dómshússins á meðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×