Skoðun
Haukur Örn Birgisson

Írafár á netinu

Haukur Örn Birgisson skrifar

Fyrir sléttum fimmtíu árum söng Johnny Cash inn á hljómplötuna At Folsom Prison. Áhorfendurnir voru fangar þeirrar ágætu stofnunar og var hljómplatan tekin upp á tónleikum innan veggja fangelsisins. Nokkur laganna fjölluðu um kollega áhorfendanna, sem sumir hverjir biðu aftöku sinnar á dauðadeildum. Lagið „25 minutes to go“ fjallar t.a.m. um mann sem á lengd eins Friends-þáttar eftir af ævi sinni og verður að teljast til gálgahúmors – bókstaflega. Af upptökunum má hins vegar heyra fangana ærast af gleði yfir flutningi hr. Cash.

Ég er ekki viss um að söngvarinn fengi sömu viðbrögð í dag, enda allar líkur á því að viðkvæmir áhorfendur myndu móðgast eða særast yfir textunum. Ein söngkona (úps, ég meinti söngfræðingur) fékk t.d. á baukinn fyrir nokkru síðan þegar hún fór, í barnabók sinni, ranglega með fagheiti og einkennisbúning hjúkrunarfræðinga. Henni voru gerðar upp annarlegar hvatir og bókina átti að sniðganga. Hún hafði móðgað stéttina. Ég er nokkuð viss um að henni gekk gott eitt til með skrifum sínum en viðbrögðin á samfélagsmiðlunum endurspegluðu tíðarandann.

Ég verð að segja eins og er að ég nota sjálfur þetta „niðrandi“ orð þegar ég dvel með ungum syni mínum á spítala – enda finnst mér orðið vera mun hlýlegra heldur en lögverndaða starfsheitið. Með þessu er ég samt ekki að gera lítið út starfinu. Síður en svo og þvert á móti. Það er a.m.k. ekki ætlun mín.

Við verðum að hætta að móðgast svona auðveldlega og taka hluti persónulega. Ofurviðkvæmni er umræðunni ekki til framdráttar og við þurfum að hætta að gera öðru fólki upp annarlegar hvatir. Annars þurfum við lögfræðingarnir að fara í alvarlega sjálfsskoðun undir myllumerkinu #HættiðAðGeraGrínAðOkkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.