Þegar Fanney var komin 20 vikur á leið greindist hún með leghálskrabbamein. Reynt var að meðhöndla meinið með lyfjagjöf svo meðgangan gæti gengið sinn vanagang.
Krabbameinið lét hins vegar ekki að stjórn og var því ákveðið að taka barnið með keisaraskurði á 29. viku meðgöngunnar.
Greint er frá þessu á Facebook-síðu líkamsræktarstöðvarinnar Hress sem hefur ákveðið að veita fjölskyldunni lið með því að gera hana að styrktarmálefni Hressleikanna 2018.
„Það er ljóst að verkefnin eru mörg hjá litlu fjölskyldunni. Í kjölfarið af fæðingu fyrirbura og krabbameinsmeðferðar þurfa þau á kröftum hvors annar að halda og ekki auðvelt að stunda vinnu með fram slíkum áskorunum. Nauðsynlegt er að gefa sér tíma til að fara vel með sig,“ segir á Facebook-síðu Hress.
Verða Hressleikarnir haldnir 3. nóvember en sala á Happdrættislínum hefst 20. október.
Söfnunarreikningur Hressleikanna er:
RKN: 0135-05-71304
KT: 540497-2149.