Innlent

Ný virkjun gæti knúið fimm þúsund rafbíla

Margrét Helga Erlingsdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Hægt verður að knýja fimm þúsund rafbíla með nýrri Glerárvirkjun sem var formlega gangsett á Akureyri á föstudag.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í september 2013 að virkjunin yrði reist en hún er sú fjórða sem Fallorka, dótturfélag Norðurorku, starfrækir á Eyjafjarðarsvæðinu. Virkjunin ber nafnið Glerárvirkjun 2 þar sem fyrir er í ánni nærri aldagömul virkjun sem gangsett var á ný fyrir rúmlega áratug. Sú virkjun er í miðjum bænum en hin nýja er í Glerárdal um sex kílómetra fyrir ofan bæinn.

„Það er eiginlega verið að virkja fallið niður heilan dal, 240 metra fallhæð sem safnast saman á þessum sex kílómetra kafla,“ segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku.

Andri Teitsson segir að það hafi sárvantað raforku í Eyjafirði.vísir/Tryggvi Páll
Vatnið er leitt í langri pípu frá litlu uppistöðulóni inni í dalnum og þaðan niður í bæ í stöðvarhúsi á bökkum Glerár. Virkjunin er 3,3 MW sem nægir til þess að framleiða rafmagn fyrir ríflega fimm þúsund heimili á Akureyri og segir Andri að það muni um minna.

„Það kemur sér mjög vel, það hefur sárvantað rafmagn hérna í Eyjafirði,“ segir Andri.

Það voru fyrrverandi starfsmenn Rafveitu Akureyrar sem fengu heiðurinn af því að koma rafmagnsframleiðslunni af stað undir vökulu auga forseta Alþingis, sem fylgdist grannt með þegar vélarnar fóru að snúast.

Rafbílar njóta æ meiri vinsælda hér á landi og eru Akureyri þar ekki undanskilinn og segir Andri að með virkjuninni aukist getan til þess að styðja við frekari landvinninga slíkra bíla á Akureyri.

„Það vill þannig til að einn rafmagnsbíll notar álíka mikið eins og eitt heimili þannig að við getum líka sagt að þetta dugi fyrir fimm, sex þúsund rafbíla ef því er að skipta,“ segir Andri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×