Handbolti

Ætla að gera KA-húsið svart í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auglýsing fyrir leikinn.
Auglýsing fyrir leikinn. Mynd/http://www.ka.is/

Það má búast við troðfullu húsi og æsispennandi leik í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld þegar nýliðarnir mætast í KA-húsinu á Akureyri.

Lið Akureyrar og KA komu bæði upp úr Grill 66 deild karla síðasta vor og mætast í fyrsta leik sínum í efstu deild í vetur.

Leikurinn hefst klukkan 19.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

KA-menn hafa ráðlagt fólki að kaupa miða í forsölu því annars gætu verið engir miðar í boði. „Í fyrra var uppselt og þurftum við að vísa fólki frá,“ segir í Twitter-færslu KA-manna.  Síðustu fréttir frá Akureyri eru að það séu örfáir miðar eftir.Akureyringar ætla að fjölmenna í KA-húsið og munu reyna að kæfa gula litinn hjá KA-mönnum ef marka má Twitter-reikning Handboltafélags Akureyrar.

„Gerum KA-húsið svart og styðjum okkar menn til sigurs,“ segir í færslu þeirra sem má sjá hér fyrir neðan.Þetta er í fyrsta sinn sem KA og Akureyri mætast í efstu deild karla í handbolta og jafnframt fyrsti Akureyrarslagurinn í efstu deild karla síðan 16. desember 2005. Þá unnu KA-menn eins marks sigur, 26-25, í Höllinni á Akureyri.

Veturinn eftir voru KA og Þór komin í samstarf undir merkjum Handboltafélags Akureyrar en vorið 2017 slitnaði upp úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri Handboltafélag og stofnuðu KA-menn sitt eigið lið á meðan Þórsarar héldu áfram að spila undir merkjum Akureyrar.

Akureyri er með upphitun fyrir leikinn á heimasíðu sinni og þar kemur fram að það eru miklar tengingar á milli liðanna.

„Til að mynda er fyrirliði KA-manna, Andri Snær Stefánsson, leikjahæsti leikmaður í sögu Akureyrar Handboltafélags. Í leikmannahópi KA má finna fleiri goðsagnir úr sögu AHF og ber þar helsta að nefna gömlu brýnin Heimi Örn Árnason og Hrein Þór Hauksson,“ segir í fréttinni.

Þegar liðin mættust á sama stað í upphafi síðustu leiktíðar í Grill 66 deild karla vann KA 10-0 sigur eftir að leikurinn hafði endað með 19-19 jafntefli. Í síðari leik liðanna vann Akureyri fjögurra marka sigur, 24-20, fyrir framan meira en 1100 áhorfendur í Íþróttahöllinni.

KA-menn auglýsa líka leikinn á heimasíðu sinni og kalla leikinn „baráttuna um bæinn“ en það má lesa upphitun þeirra með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.