Neytendur

Óska eftir aðstoð við að leggja sig niður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bjarni Finsson, stjórnarformaður Pokasjóðs, segir að baráttan gegn plasti sé dauðans alvara. Þrátt fyrir árangur á síðustu árum þurfi að bretta upp ermar.
Bjarni Finsson, stjórnarformaður Pokasjóðs, segir að baráttan gegn plasti sé dauðans alvara. Þrátt fyrir árangur á síðustu árum þurfi að bretta upp ermar. Vísir/Valli
Pokasjóður mun á næstu árum leggja allt kapp á að gera sig óþarfan. Stjórnarformaður sjóðsins, Bjarni Finnsson, kallar eftir því að Íslendingar hætti að kaupa plastpoka - þó svo að það myndi óneitanlega hafa í för með sér að leggja þurfi Pokasjóð niður.

Sjóðurinn var stofnaður fyrir um aldarfjórðungi með það að markmiði að draga úr notkun plastpoka á Íslandi. Þrátt fyrir að góður árangur hafi náðst í baráttunni og dregið hafi úr plastpokanotkun þarf meira að koma til að sögn Bjarna. Áætlað er að hver Íslendingur noti ennþá að meðaltali rúmlega 100 plastpoka á ári, heildarnotkun sem nemur 35 milljónum plastpoka árlega. Í ljósi þess að það getur tekið plast hundruð ára að brotna niður í náttúrunni segir Bjarni að þessi notkun sé okkur ekki til framdráttar.

„Þetta er svo geigvænlegur skaðvaldur í heiminum og fólk er fyrst almennilega að átta sig á því núna.“

Pokasjóður fær tekjur af sölu plastburðarpoka í verslunum, sem hann úthlutar síðan til verkefna sem „heyra undir almannaheill.“ Frá stofnun hefur sjóðurinn úthlutað rúmlega tveimur milljörðum króna til hinna ýmsu verkefna. Bjarni segir að á síðustu árum hafi umhverfsmál verið sjóðnum hugleikin og að á næstu árum verði enn ríkari áhersla lögð á að styrka verkefni sem hafi það að markmið að draga úr plastnotkun. Um það sé mikill einhugur innan sjóðsins.

„Það er plast í nánast öllu, það er alls staðar. Við erum því tilbúin að leggja öllum góðum málum lið sem myndu stuðla að samdrætti í plastneyslu,“ segir Bjarni. Pokasjóður vilji leggja sitt af mörkum til að ýta undir og taka þátt í þróun á lausnum sem gætu komið í stað plasts, og þá sérstaklega í stað plastpoka í verslunum.

Við úthlutun úr Pokasjóði. Hér er Bjarni með þeim Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar og Önna Pétursdóttir, formanni Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, árið 2015.snorri björnsson
Þannig sé draumur sjóðsins að Íslendingar hætti alfarið að nota plastpoka í náinni framtíð. Það myndi þó tvímælalaust þýða að teykjustreymi Pokasjóðs myndi stöðvast. Bjarni segist hafa fullan skilning á því að það þyki undarlegt að Pokasjóður sé að berjast gegn eigin tilvist. Það er þó raunin, markmið Pokasjóðs er að leggja sig niður og vonar Bjarni að það takist á næstu fimm árum. „Það er skrítin bisniss að reyna að leggja sig niður,“ segir stjórnarformaðurinn.

Aðspurður um hvort hann telji raunhæft að hægt verði að leggja sjóðinn niður fyrir árið 2023, að plastpokasölu verð hætt fyrir þann tíma, segir Bjarni að það sé kannski ólíklegt en alls ekki óraunhæft. „Ef það kemur eitthvað skrið á svona alvöru mál þá er það ekkert fráleitt. Þetta getur gerst hratt ef fólk vill.“

Hann segist þó ekki vera hrifinn að hugmyndum um að íslensk stjórnvöld fari sömu leið og Frakkar og Nýsjálendingar, sem bannað hafa sölu á plastpokum. Stykkishólmur reið á vaðið af íslensku sveitarfélögunum, en bærinn hefur verið nánast plastpokalaus frá árinu 2014. Bjarna þætti æskilegra að ráða niðurlögum plastpoka án valdboðs og nefnir í því samhengi fjárhagslega hvata. „Mér finnst það álitlegra, en það getur vel verið að einhvern tímann verði talin þörf á banni. Hæfileg gjaldtaka á alla plastpoka gæti verið betra fyrsta skref að mínu mati,“ segir Bjarni.

Meðal-Íslendingurinn notar að meðaltali 100 plastpoka á ári.Vísir/Getty
Það ætti þó ekki að koma á óvart hversu hægt það virðist ganga að ráða niðurlögum óhóflegrar plastnotkunar að sögn Bjarna. Nútímamaðurinn sé í raun háður plasti enda er það, sem fyrr segir, allt í kringum okkur. „Plastið sem slíkt er náttúrulega orðið rúmlega 100 ára gamalt fyrir og því þurfum við kannski að sýna þessari baráttu smá þolinmæði,“ segir Bjarni.

„Engu að siður er hún dauðans alvara.“

Hann segir að stjórnvöld verði af þeim sökum að taka á plastnotkun „skynsamlega og alvarlega.“ Það geti þau til að mynda gert með því að auka samfélagsvitun um skaðsemi plastsins. Að sama skapi geti árveknisátök, á borð við Plastlausan september sem nú stendur yfir, skipt sköpum í vitundarvakningunni sem nauðsynleg er, að mati Bjarna.

Hann kallar eftir því að flokkun og endurvinnsla á því plasti sem nú þegar er í umferð verði gerð auðveldari fyrir almenning. Mörg sveitarfélög bjóða íbúum nú upp á sérstakar tunnur undir plast sem að mati Bjarna er skref í rétta átt. Engu að síður megi gera meira til að það verði „freistandi og áhugavert að skila plastinu,“ eins og Bjarni orðar það.

Pokasjóður kalli því eftir góðum hugmyndum; bæði um lausnir sem gætu komið í stað plastpoka og annars plasts, sem og hugmyndir um samtök og málefni sem sjóðurinn gæti styrkt í baráttunni gegn plastnotkun.

Lesendur sem vilja leggja baráttunni lið og minnka plastnotkun er bent á vefsíðu Plastslauss septembers. Þar má finna ýmis ráð og ábendingar, til að mynda hvað megi nota í stað plastpoka í ruslatunnur.


Tengdar fréttir

Íslendingar nota 35 milljónir plastpoka á ári

Átakinu „Tökum upp fjölnota“ var hleypt af stað í dag en það er á vegum Pokasjóðs, sem í tvo áratugi hefur haft tekjur af sölu plastpoka, en stefnir nú að því að leggja sjálfan sig niður.

Plastpokarnir virðast á útleið

Verulega hefur dregið úr sölu plastpoka á Íslandi undanfarna mánuði, allt upp í tuttugu prósent í sumum verslunum.
Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
4,32
70
142.480
VIS
1,82
12
189.481
KVIKA
1,65
12
479.823
MAREL
1,24
24
423.219
HAGA
0,86
9
313.736

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REGINN
-1,77
24
82.736
REITIR
-1,29
11
84.806
ORIGO
-0,57
3
4.773
ARION
-0,4
14
127.862
SJOVA
-0,3
6
87.765
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.