Innlent

Stelpur „slógust“ á Sjómannadeginum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sjómannadagur var haldinn hátíðlegur víða um land í dag og var sjómanna minnst við minnismerki þeirra í Reykjavík og í Bolungarvík. Á Akureyri var boðið í skemmtisiglingu í eikarbátnum Húna tvö og stelpur háðu harðan koddaslag á planka úti á Granda. 

Dagskráin í Reykjavík hófst með athöfn við Minningaröldur Sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði en á meðal gesta voru forsetahjónin. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð og blómsveigur var lagður að minnismerkinu sem á eru rituð nöfn drukknaðra, týndra sjómanna og annarra sæfarenda.

Á Bolungarvík var haldin minningarathöfn um borð í varðskipinu Tý vegna þess að fimmtíu ár eru liðin frá því að Heiðrún tvö sökk með sex manns um borð. Siglt var að staðnum þar sem báturinn sökk og var tveimur blómsveigum varpað í sjóinn. Um borð voru aðstandur þeirra sem fórust og embættismenn.

Á Akureyri sigldu gamli eikarbáturinn Húni tvö og fleiri smábátar frá Torfunesbreyggju og voru gestir boðnir í siglingu. Þá buðu skipverjar á Húna fólki aftur til lystisiglingar um Pollinn síðdegis.

Koddaslagurinn frægi við höfnina í Reykjavík var endurvakinn í fyrra en í ár var blásið til stelpuslags. Átta fræknar konur öttu kappi og stóð Dóra Haraldsdóttir uppi sem sigurvegari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×