Á kjörskrá voru 4.689 félagsmenn en alls greiddu 3.423 þeirra atkvæði. Þeir sem greiddu atkvæði gegn nýjum kjarasamningi voru 24,45% atkvæða. Auðir voru 1,55% atkvæða.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir í samtali við fréttastofu að hún sé ánægð að stéttin sé tilbúin að fara í þá vegferð sem fram undan er.

„Fyrst og fremst þurfum við að eiga samtalið við kennarana og þeir eru auðvitað núna að fara í sína endurmenntun og starfsþróun áður en þeir hefja síðan sitt sumarfrí þannig að það verður erfitt að ná kennurum í samtal núna á þessum dögum en strax í haust þá förum við og heyrum í kennurum,“ segir Þorgerður um næstu skref.
Launahækkun upp á 4,1% og 150 þúsund króna eingreiðsla er á meðal þess sem nýr kjarasamningur grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga felur í sér. Þá verður vinnumat fellt út og tími til undirbúnings aukinn auk þess sem launaflokkur bætist við eftir 20 ár í kennslu.
Undirritun nýs kjarasamnings við grunnskólakennara fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara 25. maí síðastliðinn.