Lífið

Einkatónleikar með Stebba Jak á 120.000 krónur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Jakobsson safnar fyrir sólóplötu.
Stefán Jakobsson safnar fyrir sólóplötu. vísir/stefán
„Ég hef ákveðið að gefa út mína fyrstu plötu undir listamannsnafninu JAK. Með mér í för eru landsþekktir tónlistarmenn sem munu ljá hæfileika sína við upptökur og tónleikahald. Ólöf Erla hjá Svart mun sjá um hönnun umslags sem og aðra hönnun,“ segir  söngvarinn Stefán Jakobsson á söfnunarsíðunni Karolina Fund en hann safnar þar fyrir sinni fyrstu sólóplötu.

Stebbi Jak er helst þekktur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Dimmu. Markmiðið er að safna 10.000 evrum eða því sem samsvarar 1,2 milljónir íslenskra króna.

„Svona verkefni er þungt í vöfum og síður en svo sjálfsagt að þetta gangi upp. Við vitum að við erum með gull í höndunum og höfum því ákveðið að leita eftir stuðningi í gegnum Karolina fund til að fjármagna hluta verkefnisins.“

Stefán hefur lofað ákveðnum hlutum í skiptum fyrir fjárframlög. Til að mynda ef þú styður verkefnið um 30.000 krónur þá færðu út að borða fyrir tvo með Stebba sjálfum. Aftur á móti ef þú styður sólóplötuna um 120.000 krónur þá færðu einkatónleika:

„Einkatónleikar í 30 mín á höfuðborgarsvæðinu  (eftir samkomulagi) JAK mætir og spilar í 30 mín. Lög af plötunni í bland við  úrval bestu laga í heimi (að hans mati). Tilvalið sem tækifærisgjöf eða fyrirtæki sem vilja brjóta upp daginn fyrir starfsfólk á vinnutíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×