Innlent

Tónelskur læknir varð peð í pólitískri refskák

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir söguna af því þegar Sigvaldi Kaldalóns var rekinn úr Læknafélagi Íslands, sem fagnar 100 ára afmæli sínu.
Óttar Guðmundsson geðlæknir segir söguna af því þegar Sigvaldi Kaldalóns var rekinn úr Læknafélagi Íslands, sem fagnar 100 ára afmæli sínu.
menning „Sigvaldi Kaldalóns var rekinn úr Læknafélagi Íslands 1929 eftir að hafa orðið bitbein í póli­tískri deilu þar sem mættust stálin stinn, Hriflu-Jónas og Guðmundur Hannesson, formaður Læknafélags Íslands, sem var einráður í Læknafélaginu,“ segir Óttar Guðmundsson, geðlæknir og formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar.

Óttar ætlar í kvöld að rekja þessa sögu á Læknadögum. „Við blöndum síðan tónlist saman við þetta en Karlakórinn Fóstbræður syngur þekktustu lög Sigvalda ásamt Hildigunni Einarsdóttur mezzosópran við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.“

Óttar segir deiluna hafa blossað upp eftir að formaður Læknafélagsins tók „veitingavaldið af veitingavaldinu með því að fá því framgengt að læknar ættu að sækja um stöður til Læknafélagsins en ekki ráðuneytisins.

Þessu gat Hriflu-Jónas dómsmálaráðherra ekki unað og ég stend nú reyndar með honum í þessari deilu. Það reynir síðan ekki á þetta fyrr en Keflavík losnar. Sjálfstæðismaðurinn Jónas Kristjánsson, harðasti andstæðingur Jónasar á þingi, sækir um og læknar mæla með honum. Jónas er þarna kominn í hálfgert öngstræti. Hann hafði engan annan umsækjanda svo að hann átti um tvo kosti að velja, skipa Jónas Kristjánsson og játa sig þannig sigraðan eða leita til erlendra lækna.“

Þá berst honum að sögn Óttars himnasending í umsókn frá Sigvalda.

„Jónas skipar Sigvalda samstundis. Læknar bregðast hinir verstu við og hóta öllu illu.“ Jónas gaf sig þó hvergi og beitti Sigvalda miklum þrýstingi og sama gerðu læknar.

„Þetta er merkileg saga og ég hef mikla samúð með Sigvalda í þessu. Hann fer þarna gegn læknunum og málar sig alveg út í horn. Hann var samstundis rekinn úr Læknafélaginu og Sjálfstæðismenn í Keflavík banna héraðsbúum að hýsa hann eða veita honum lið. Aumingja Sigvaldi, þessi friðsami og ópólitíski maður. Tónskáld. Dregst inn í þetta. Verður bitbein Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og læknarnir brjálaðir út í hann.“

Dagskráin hefst klukkan 20 í Norðurljósum Hörpu. „Það er ókeypis inn þar sem Læknafélagið er í miklu hátíðarskapi og býður upp á þetta, klassa-tónleikar og skemmtileg saga. Hver vill hafa það betra?“ segir Óttar.

thorarinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×