Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu kemur fram meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík hafi verið 2.000 á síðasta ári og fjölgaði þeim um 116% á einu ári. Á sama tíma er grimm umframeftirspurn eftir litlum og meðalstórum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kemur í skýrslu Arion banka um húsnæðismarkaðinn að uppbyggingaráform í borginni hafi gengið illa eftir. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs segir að sveitarfélögin verði að grípa til raunhæfra aðgerða til að mæta húsnæðisvandanum.
„Núna framundan eru nokkur þúsund íbúðir í farvatninu þannig að við erum að horfa fram á betri tíð en þetta eru tvö, þrjú, fjögur ár. Ef við sem samfélag erum sammála um að það þurfi að bregðast við fyrr þá er bara ein leið. Hún er að banna Airbnb á ákveðnum svæðum,“ segir Ármann. Hann segir að slíkt bann væri hluti af heildarstefnumörkun ríkisins, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og aðila innan ferðaþjónustu.
„Þetta eru tvö þúsund gistirými bara í Reykjavík sem eru í þessu. Íbúðaþörfin hér er 1.800 íbúðir á ári. Við sjáum að ef við myndum takmarka Airbnb þá myndi markaðurinn breytast mjög hratt.“

Dagur segir að vissulega hafi Airbnb sett þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Borgin hafi á síðustu árum hraðað uppbyggingu til að mæta aukinni eftirspurn. Uppbygging á nýjum reitum er hins vegar ekki nægilega mikil eða hröð til að mæta eftirspurn ef marka má skýrslu Arion banka um húsnæðismarkaðinn.
Bæði Dagur og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs hafa kallað eftir samræmdri stefnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðismálum.
„Ég átti fund með hinum bæjarstjórunum síðastliðinn mánudag þar sem við fórum yfir þetta. Allir eru að safna gögnum hjá sér og við hittumst aftur eftir helgi og hittum í kjölfarið félagsmálaráðherra til þess að fara yfir þetta saman. Ég vona að það náist samstaða um að það sé ekki bara borgin heldur öll sveitarfélögin sem fari í uppbyggingarátak til að mæta vandanum í húsnæðismálum,“ segir Dagur.