Lífið kynningar

Svo mikilvægt að spyrja

Kerstin Kristensen og Denise Cresso hafa unnið að rannsóknum á ofbeldi gegn fötluðum konum í Svíþjóð um árabil.
Kerstin Kristensen og Denise Cresso hafa unnið að rannsóknum á ofbeldi gegn fötluðum konum í Svíþjóð um árabil.

Denise Cresso og Kerstin Kristensen hafa í mörg ár unnið að rannsóknum á ofbeldi gegn fötluðu fólki í Svíþjóð.  Þær komu til landsins í byrjun september til að halda námskeið og miðla Stígamótum og fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks af reynslu sinni og þekkingu varðandi aðstæður fatlaðra kvenna og afleiðingar ofbeldis á fatlaðar konur.
Denise og Kerstin hafa unnið saman að málaflokknum í mörg ár. Denise er blind og hefur barist fyrir hagsmunamálum fatlaðra og Kerstin kemur frá kvennaathvarfshreyfingunni  í Svíþjóð.
„Ofbeldi gegn fötluðum er ekki frábrugðið öðru ofbeldi í nánum samböndum að því leyti að þú þekkir veiku blettina á þínum nánustu og getur nýtt þá til að beita ofbeldi,“ segir Denise. „Fatlaðir hafa kannski fleiri og stærri veika bletti en aðrir.“

Kerstin bendir á að fatlaðir séu ekki sjálfkrafa útsettari fyrir ofbeldi en aðrir. „En það er hægt að beita þá ofbeldi á fleiri vegu og með margvíslegri hætti en ófatlaða. Það er til dæmis hægt að endurraða húsgögnunum og þannig gera blindri eða hreyfihamlaðri manneskju erfitt um vik að upplifa öryggi heima hjá sér, nokkuð sem ófötluð manneskja myndi ekki takast á við með sama hætti. Og þú kvartar ekki til yfirvalda undan því að einhver færi til húsgögn.“ Þá nefna þær báðar andlegt ofbeldi sem getur verið erfitt að sanna. „Með því að segja neikvæða og særandi hluti um andlega eða líkamlega getu er hægt að brjóta einstaklinginn niður og það er erfitt fyrir fatlaðan einstakling að verjast slíku.“ Kerstin segir að konur sem eru andlega fatlaðar hafi oft ekki upplýsingar um hvað telst vera ofbeldi. „Þær halda að það sem gerist sé eðlilegt, að það sé svona sem samlífi annarra er og þær þrá svo heitt venjulegt líf að þær láta ýmislegt yfir sig ganga.“

Fatlaðar konur eiga að sögn Denise og Kerstin enn fremur erfitt með að nýta sér þá hjálp sem stendur til boða. „Fatlaðar konur í nánum samböndum eiga erfitt með að flýja heimilið þar sem kvennaathvörfin bjóða oft ekki upp á aðstöðu fyrir þær,“ segir Kerstin og Denise bætir við: „Þá hafa þær oft ekki upplýsingar um hvað er ofbeldi og eru líka stundum háðar mökum sínum um umönnun. Margir ófatlaðir menn fatlaðra kvenna segja að þeim finnist erfitt að hafa alltaf einhvern inni á heimilinu og kjósa frekar að aðstoða konurnar sínar sjálfir og þá er valdaójafnvægi komið innan sambandsins og sú fatlaða er einangruð. Persónulegur aðstoðarmaður myndi sjá merki um það ef ekki er allt með felldu og ber ábyrgð á að láta vita af því. En svo verða yfirmenn viðkomandi að grípa boltann, ekki bara segja eins og stundum hefur gerst: finnst þér ekki gaman að vera hjá þeim? Viltu láta færa þig annað?“

Fatlaðar konur eru líka í varnarlausri stöðu gagnvart starfsfólki, mökum, foreldrum, systkinum og svo framvegis. „Þú ert háð öðrum um lyf, hreinlæti, næringu?…“ segir Denise og bætir við: „Vanræksla er ein tegund ofbeldis.“ Kerstin tekur fram að þær vilji ekki gera fatlaðar konur að fórnarlömbum. „Margar fatlaðar konur eru í ástríkum samböndum og hafa fulla stjórn á lífi sínu. En fötlun þeirra setur þær í meiri hættu.“ Denise bendir líka á að fatlaðar konur séu ekki alltaf teknar alvarlega sem kynverur. „Það snýst um ósýnileika. Ef þú hefur fyrirframákveðnar hugmyndir um að fatlaðar konur séu ekki kynverur þá spyrðu ekki um kynlíf, kynferðisofbeldi eða sambönd. Staðreyndin er sú að konur eru beittar ofbeldi, hvort sem þær eru fatlaðar eða ekki. Og fatlaðir karlar eru líklegri til að vera beittir kynferðisofbeldi en ófatlaðir.“

Þær segja það stöðugt koma meira upp á yfirborðið hvað kynferðisofbeldi er alvarlegt vandamál meðal fatlaðra. „Þetta er erfitt viðureignar því að margir vilja ekki horfast í augu við vandann,“ segir Denise. „Einangrun og ósýnileiki eru aðaláhættuþættirnir. Fatlaðir missa oft af fræðslu í almenna skólakerfinu og ef náinn aðstandandi er kannski gerandinn, jafnvel sá sami og stjórnar aðgangi hins fatlaða að umheiminum, er það jarðvegur þar sem misnotkun getur þrifist.“

Kerstin samsinnir þessu og bætir við: „Það er mikilvægt að fatlað fólk sé sýnilegt á sem flestum vettvangi, í auglýsingaherferðum, á sjónvarpsskjánum, ef fatlað fólk er sýnilegt alls staðar þá verður viðteknara að hugsa um það sem venjulegt fólk með vonir og þrár sem sannarlega getur líka orðið fyrir alls kyns ofbeldi.“ Þær benda líka á að ofbeldi geti þrifist þar sem báðir aðilar eru fatlaðir. „Þetta er eitt dæmi um ósýnileika. Það reiknar enginn með því að maður í hjólastól lemji konuna sína og þess vegna eru þau ekki spurð,“ segir Denise. „Við þekkjum dæmi þar sem konan var alltaf með marbletti og maðurinn hennar sem líka var í hjólastól sagði að hún væri alltaf að detta úr stólum. En eftir að hann dó hurfu marblettirnir af henni. Og þá fyrst datt umönnunaraðilum í hug að kannski væri ástæðan fyrir áverkunum sú að hann beitti hana ofbeldi. En þá var auðvitað orðið allt of seint að gera nokkuð.“

Kerstin bendir á að fatlaðir séu fjölbreyttur hópur og því ekki hægt að beina sömu upplýsingum og spurningum til allra. „Rannsóknir sýna að fólk vill tala ef það er spurt. Ef það er hins vegar fjarri spyrjandanum að viðkomandi sé kynvera vegna fötlunar eða að enginn geti fundið það í sér að vera vondur við fatlaðan einstakling þá spyrðu ekki einu sinni og ef þú spyrð ekki þá segir enginn neitt. Það þarf að spyrja. Fatlaðir fá mikla þjónustu frá sveitarfélögum og þar eru margir möguleikar til að spyrja um ofbeldi en það er ekki gert. Þess vegna eru fatlaðir enn þá ósýnilegur hluti þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi.“
Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um Stígamót sem fylgdi Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.