Innlent

Flugvélin sem nauðlenti í Heiðmörk varð eldsneytislaus

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vélinni var nauðlent á Heiðmerkurvegi.
Vélinni var nauðlent á Heiðmerkurvegi. Vísir/HKS
Ástæða þess að lítilli flugvél var nauðlent í Heiðmörk í desember síðastliðinum er sú að hún varð eldsneytislaus. Flugmaðurinn taldi sig hafa sett nóg bensín á vélina en svo reyndist ekki vera.

Þetta er niðurstaða rannsóknar Rannsóknarnefndar samgönguslysa á nauðlendingunni. Skömmu eftir hádegi þann 2. desember á síðasta ári barst barst flugturninum á Reykjavíkurflugvelli neyðarkall frá flugvélinni og fór viðbragðsáætlun í gang.

Flugmanninum tókst hins vegar að lenda flugvélinni giftusamlega á Heiðmerkurvegi. Flugmaðurinn slapp ómeiddur og skemmdist vélin ekkert við nauðlendinguna.

Við rannsókn rannsóknarnefndarinnar kom í ljós að eftir 1,6 klukkustunda flug byrjaði hreyfill vélarinnar að ganga óreglulega. Flugmaðurinn taldi flugvélina vera með eldsneyti til um þriggja klukkustunda flugs er hann lenti í Heiðmörk.

Við vettvangsrannsókn RNSA í Heiðmörk kom í ljós að eldsneytisgeymar flugvélarinnar reyndust tómir. og ekki fundust nein ummerki um eldsneytisleka.

Í ljós kom að flugmaðurinn hafði ekki tamið sér það verklag að staðfesta magn eldsneytis í eldsneytisgeymslum flugvélarinnar fyrir flug. Þess í stað studdist hann einungis við upplýsingar úr flugleiðsögutæki flugvélarinnar. Það tæki mælir ekki eldsneyti heldur styðst við innslegnar upplýsingar flugmanns sem settar.

Þá kom einnig í ljós að stuðull sem var inni í flugleiðsögutækinu fyrir eldsneytisflæði var rangur fyrir hreyfla- og loftskrúfusamsetningu flugvélarinnar. Umtalsverð skekkja var þannig á upplýsingum um eldsneytismagn í flugvélinni.

Rannsóknarnefnd beinir þeim tilmælum til flugmanna að kynna sér bækling Samgöngustöfu um hvernig megi koma í veg fyrir eldsneytisskort. Er málinu lokið af hálfu Rannsóknarnefndar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×