Innlent

Fær 450 þúsund í bætur vegna aðgerða lögreglu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í lögregluskýrslu segir að upphaf málsins megi rekja til nafnslaus símtals til lögreglu
Í lögregluskýrslu segir að upphaf málsins megi rekja til nafnslaus símtals til lögreglu Vísir/Eyþór
Ríkissjóði hefur verið gert að greiða karlmanni 450 þúsund krónur í bætur vegna tilefnislausrar handtöku, líkamsleitar, leitar í bifreið hans sem og töku þvagsýnis í ágúst 2015. Maðurinn var á ferð með fjórum farþegum í bíl á Vesturlandsvegi í Hafnarfirði.

Í lögregluskýrslu segir að upphaf málsins megi rekja til nafnslaus símtals til lögreglu þar sem lýst var grunsemdum um að bílnum væru fíkniefni og að maðurinn og annar farþegi væri undir áhrifum fíkniefna.

Þegar bifreiðin var stöðvuð var stefnandi handtekinn og færður á lögreglustöðina á Akranesi. Þar var leitað á honum en ekkert saknæmt fannst við leitina. Hann var færður í fangaklefa og gert að gefa þvagsýni, sem reyndist neikvætt.

Voru farþegar bílsins látnir sæta líkamsleit, þar á meðal sextán ára gömul stúlka sem látin var afklæðast. Henni hafa þegar verið dæmdar 800 þúsund krónur í bætur vegna þess.

Ekkert saknæmt fannst á neinu þeirra og voru þau látin laus eftir tveggja til þriggja klukkustunda hald á lögreglustöðinni á Akranesi. Manninum var þó gert að greiða tíu þúsund krónur í sekt vegna þess að hjólbarðar voru í ólagi og að of margir farþegar voru í bílnum

Maðurinn krafðist þess að fá eina og hálfa milljón króna í miskabætur vegna aðgerða lögreglu. Lögmaður ríkisins viðurkenndi skaðabótaskyldu ríkisins vegna aðgerða lögreglu en deilt var um fjárhæð miskabóta í málinu.

Féllst héraðsdómur á það aðgerðir lögreglu hefði verið til þess fallnar að valda manninum miska. Héraðsdómur taldi þó að skaðabótakrafa væri of há miðað við atvik málsins, sem og dómaframvæmd.

Þarf íslenska ríkið að greiða manninum 450 þúsund krónur í bætur en málflutningsþóknun lögmanns manns greiðist úr ríkissjóði, 796.640 krónur.

Dóm héraðsdóms má sjá hér.


Tengdar fréttir

Létu 16 ára stúlku afklæðast á Akranesi

Nafnlaus ábending um fíkniefnavörslu varð til þess að ungmenni voru handtekin á Vesturlandi. Leitað var innanklæða á 16 ára stúlku. Hvorki var haft samband við foreldra stúlkunnar né barnaverndaryfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×