Umfjöllun, viðtöl og myndir: Keflavík - Tindastóll 88-97 | Pétur fór fyrir Tindastólsliðinu eftir að Hester meiddist

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antonio Hester meiddist í kvöld.
Antonio Hester meiddist í kvöld. Vísir/Andri Marinó
Sterkur þriðji leikhluti Tindastóls gerði útslagið í toppslag við Keflavík í TM-höllinni í Keflavík í sjöttu umferð Domino’s deildarinnar í körfubolta í kvöld.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan og neðan.

Gestirnir frá Sauðárkróki voru sterkari frá upphafi og náðu forystu snemma sem þeir gáfu aldrei eftir. Heimamenn náðu þó að hanga í þeim framan af og var sex stiga munur í hálfleik, 41-47.

Svo kviknaði í Pétri Rúnari Birgissyni. Í hálfleik var hann með fimm stig. Hann kláraði leikinn með 26. Hann setti nítján stig niður í röð í þriðja leikhluta og unnu Tindastólsmenn hann 31-17.

Með 19 stiga forskot fyrir fjórða leikhluta var leikurinn unninn fyrir Tindastól. Þeir hleyptu heimamönnum aðeins inn í leikinn, en unnu að lokum með níu stigum 88-97.

Afhverju vann Tindastóll?

Þeir voru sterkari frá upphafi. Mættu viljugri til leiks og börðust vel. Þeir hittu vel, þeir voru að berjast í fráköstunum og spiluðu mjög góða vörn. Keflvíkingar gerðu þeim þetta kannski auðvelt fyrir, hafa átt betri daga, en Tindastóll spilaði mjög vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og áður segir var Pétur Rúnar Birgisson algjörlega frábær. Hann var með 36 framlagspunkta og vann þennan leik fyrir Tindastól. Sigtryggur Arnar Björnsson átti líka mjög góðan dag, var með 21 stig og sex fráköst.

Hjá Keflavík var Reggie Dupree atkvæðamestur og hann dró liðið áfram á endasprettinum.

Hvað gekk illa?

Það er erfitt að koma fingri á nákvæmlega hvað það var sem var ekki að ganga upp hjá Keflavík. Þeir voru nokkuð jafnir Tindastól í fráköstum og þeir hittu vel. Held ég verði að setja þetta bara á að það vantaði baráttuviljann hjá Keflavík. Stúkan var ekki að gefa þeim mikið og leikur þeirra virkaði nokkuð andlaus á tímum.

Hvað gerist næst?

Tindastóll fær Þór Þorlákshöfn í heimsókn á Krókinn eftir viku og Keflvíkingar fara til Egilsstaða og mæta Hetti.

Keflavík-Tindastóll 88-97 (16-22, 25-25, 18-31, 29-19)

Keflavík: Reggie Dupree 19, Ágúst Orrason 15/8 fráköst, Magnús Már Traustason 13, Cameron Forte 13/11 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 9, Ragnar Örn Bragason 8/4 fráköst, Hilmar Pétursson 7/5 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 4/5 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 0, Daði Lár Jónsson 0, Arnór Sveinsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0.

Tindastóll: Pétur Rúnar Birgisson 26/7 fráköst/13 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 21/6 fráköst, Antonio Hester 16/6 fráköst, Axel Kárason 14/6 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 8/8 fráköst, Viðar Ágústsson 5, Christopher Caird 4, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 3, Friðrik Þór Stefánsson 0, Helgi Freyr Margeirsson 0, Finnbogi Bjarnason 0, Hannes Ingi Másson 0.

Pétur: Þeir fá að njóta sín seinna„Þeir sem hafa spilað körfubolta þekkja þetta, þegar hringurinn bara stækkar og það bara skiptir ekki máli hverju þú kastar upp, það dettur alltaf niður,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson spurður út í þetta magnaða framlag hans í þriðja leikhluta.

„Þessar tíu mínútur voru bara þannig hjá mér.“

Hann var ekkert á því að hann hefði átt að hleypa liðsfélögunum að á meðan þessari skotveislu stóð. „Nei nei, þeir fá alltaf sinn tíma til að njóta sín seinna.“

Tindastóll var sterkari aðilinn út leikinn og var Pétur ánægður með sitt lið í kvöld.

„Varnarlega hefðum við getað verið aðeins betri. Þeir hittu vel í lokin og fengu kannski of mikið af opnum skotum. Í heildina litið bara flottur leikur hjá okkur.“

Hann vildi þó ekki fljúga of langt af jörðinni þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik síðan í fyrstu umferð.

„Við skulum nú róa okkur, það eru búnir hvað sex leikir? Við þurfum að halda áfram að gera gott,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson.

Friðrik: Óásættanlegur varnarleikur„Ákveðin vonbrigði yfir leik okkar í dag. Við vorum langt frá því besta sem við höfum sýnt þetta haustið,“ voru fyrstu viðbrögð Friðriks Inga Rúnarssonar, þjálfara Keflavíkur, eftir leikinn.

„Þetta var langt frá því besta sem við höfum sýnt.“

Cameron Forte fékk lítinn leiktíma hjá Friðrik í síðasta leikhlutanum, en hann gaf nú lítið undir það að þar lægi eitthvað stórt að baki.

„Þessi hópur sem var inn á undir lokin náði bara mjög vel saman. Eins og sást þá náðum við að minnka muninn og jafnvel hefðum getað gert meira. Ég sá enga ástæðu til að breyta því sem var þar í gangi.“

„Í sjálfu sér fannst mér það augljóst að þeir myndu klára leikinn sem komu okkur í séns að vinna.“

Hvað réði úrslitum í kvöld?

„Tindastóll var miklu grimmari. Leikmenn gengu á lagið og fengu sjálfstraust í sínum skotum. Varnarleikur okkar á tímabili var hreint út sagt skelfilegur og algjörlega óásættanlegur,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.

Israel: Liðsheildin vann leikinn„Ég vil byrja á að óska leikmönnunum til hamingju. Sérstaklega þar sem Hester gat ekki spilað megnið af leiknum. Við urðum sterkari án hans og þessi sigur er fyrir hann,“ sagði Israel Martin ,þjálfari Tindastóls, eftir leikinn.

„Við spiluðum vel á móti einu sterkasta sóknarliði deildarinnar.“

„Þeir skoruðu mikið af þriggja stiga skotum, en við réðum vel við leikinn. Við gefum einhverjar 24 stoðsendingar sem er mjög mikilvægt fyrir okkur.“

Svar Martin við hvað hafi ráðið úrslitum var einfalt. „Liðsheild.“

Antonio Hester meiddist illa í öðrum leikhluta og þurfti að fara af velli. Martin vissi ekki nákvæma stöðu á ástandi hans, en hann hafði farið upp á sjúkrahús til þess að taka mynd af ökklanum og meta ástand hans.

„Ökklinn á honum var ekki svo stór, vonandi er þetta ekki of alvarlegt. Við hugsum bara um að hlúa að honum núna,“ sagði Israel Martin

vísir/andri
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó
Vísir/Andri Marinó

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.