Lífið

Dæmdur fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu og nauðgun: Ætlar að koma betri út í samfélagið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hrafnkell Óli Hrafnkelsson er fangi á Hólmsheiði.
Hrafnkell Óli Hrafnkelsson er fangi á Hólmsheiði.
„Flest allir dagar eru rólegir en ef það er æsingur í fólki þá getur þetta verið mjög erfitt líkamlega og andlega,“ segir Þórir Guðlaugsson, fangavörður á Hólmsheiði. Þórir var á meðal viðmælenda Ásgeirs Erlendssonar í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Ásgeir fékk að kíkja á bak við rimlana og fylgjast með degi í lífi fangavarðar í fangelsinu. 

Fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun fyrir rúmlega ári síðan og er það móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi, auk þess að hafa deildir fyrir konur. 36 fangar voru í húsinu þegar Ásgeir kíkti í heimsókn, en þar er pláss fyrir 56.

„Þegar menn eru að koma hingað inn í fyrsta skipti þá eru menn oftast mjög órólegir og einfaldlega hræddir. Þeir sjá þetta í bíómyndum og í þáttum í sjónvarpinu en síðan er raunveruleikinn aðeins öðruvísi hérna,“ segir Þórir.

Þórir hefur unnið sem fangavörður í fjögur ár.
Inni í opna rými fangelsisins eru símar stranglega bannaðir. Ásgeir fékk að kíkja inn á deild og ræða við fangana.

„Ég er búinn að vera hérna í eina viku og verð hér í um mánuð í viðbót. Þar áður var ég á Litla-Hrauni í eitt og hálft ár,“ segir Hrafnkell Óli Hrafnkelsson, fangi á Hólmsheiði. Hann mun snúa aftur á Litla-Hraun innan tíðar til að halda afplánun sinni áfram.

Hrafnkell segir að munurinn á Hólmsheiði og Litla-Hrauni sé umtalsverður.

„Þetta eru nýjar aðstæður fyrir mig og þetta lítur alveg hrikalega vel út. Starfsfólkið er mjög fínt hérna og þetta er nokkuð heimilislegt. Munurinn er samt töluverður þegar kemur að aukabúnaði og ég myndi segja að það væri betra að vera á Hrauninu. Þar er maður með tölvu og fleira og líkamsræktarsalurinn er ekki salur með brennslutækjum, heldur þar eru einnig lóð með lyftingaraðstöðu,“ segir Hrafnkell sem er að berjast fyrir því að fá lóð á Hólmsheiðina.

Þórir fangavörður segir að fangahópurinn á Íslandi sé í dag harðari en hér áður fyrir.

„Maður væri ekki mennskur ef maður myndi segja að maður yrði aldrei hræddur. Það koma alveg upp aðstæður þar sem manni stendur ekki alveg á sama.“

Fangelsið á Hólmsheiði opnaði fyrir einu ári.
Ánægður að vera kominn í fangelsi

„Ég myndi aldrei tala við fangaverði á Litla-Hrauni. Það er öðruvísi kúltúr þar og mér hefur sem betur fer tekist að líka við alla fangaverði hér. Það er miklu heimilislegra hér og maður horfir liggur við á fangaverðina sem vin. Ég vil kannski ekkert vera skjóta á starfsfólk á Litla-Hrauni en það er dónalegra þar,“ segir Hrafnkell.

„Ég er bara mjög ánægður að hafa komið í fangelsi. Ég var á röngum stað í lífinu og er búinn að snúa við blaðinu. Ef ég hefði ekki komið í fangelsi þá hefði þessi tíu ára dómur getað farið í 16 ár og enn fleiri dóma.“

Hrafnkell segist vera inni fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu og nauðgun.

„Það geta allir farið og predikað að menn séu saklausir en staðreyndin er einfaldlega sú að það er búið að dæma mig og þetta er bara svona. Ég vil ekki fara ofan í málið mitt, það breytir í raun ekki neinu og er í fortíðinni. Það eina sem ég get gert er að nýta þessi tíu ár og koma betri inn í samfélagið til baka.“

Hér að neðan má sjá umfjöllun Íslands í dag frá því í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.