Skoðun

Þjóðarátak um bætt kjör kvennastétta

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Konur eru að jafnaði með um 16% lægri laun en karlar samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Okkur hefur lítið miðað í að draga úr þessum launamun á undanförnum árum þrátt fyrir mikla umræðu um þetta óréttlæti. Þetta er staðan, þrátt fyrir að konur séu að jafnaði með betri menntun en karlar, þrátt fyrir að konum hafi fjölgað verulega í stjórnum fyrirtækja, þrátt fyrir jafnvægi hafi náðst í kynjahlutföllum á Alþingi og þrátt fyrir ótal marga aðra sigra í jafnréttismálum.

Í dag eru 42 ár liðin frá kvennafrídeginum þar sem um 90% íslenskra kvenna lögðu niður vinnu til að meðal annars til að mótmæla kynbundnum launamun. Þann dag komu 25 þúsund konur saman í miðborginni til að mótmæla þessu óréttlæti. Verkfallið varð kveikjan að stóraukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum og stórstígum framförum í jafnréttismálum. Það er hins vegar óþolandi að nú 42 árum síðar sé launamunur kynjanna enn jafn mikill og raun ber vitni.

Þrátt fyrir að við hælum okkur af frábærum árangri í jafnréttismálum á alþjóða vísu er Ísland með níunda mesta launamun kynjanna í Evrópu. En hvernig getur staðið á því að þetta er staðan? Ástæðan er í sjálfu sér einföld. Það er kerfisbundin skekkja í launum stórra stétta sem einkum eru skipaðar konum. Þetta eru leikskólakennarar, grunnskólakennarar, heilbrigðisstarfsfólk og stórar stéttir aðrar sem einkum vinna hjá ríki og sveitarfélögum. Kjör þessara kvennastétta leiða til þess að Ísland mælist með níunda mesta launamun kynjanna í Evrópa. Þessi staða hefur afleiðingar fyrir konur og fyrir okkur öll. Það er ekki hægt að tala um uppbyggingu innviða án þess að ræða um kjör kvennastétta. Þetta tvennt helst í hendur.

Við sem samfélag þurfum að hafa kjark til að breyta þessu. Það sem til þarf er þjóðarsátt um bætt starfskjör kvennastétta. Verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og opinberir aðilar þurfa að skuldbinda sig til að fara með lausnamiðuðum hætti inn í þetta verkefni og hækka verulega laun þessara stétta. Ekkert réttlætir að byrjunarlaun leikskólakennara með 5 ára nám að baki sé rúmum 200 þúsund krónum undir meðallaunum í landinu.

Höfundur er félags-og jafnréttismálaráðherra og oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×