Skoðun

Hættulega leiðinlegar kosningar

Hjörtur Hjartarson skrifar
Það er umræða um fátæklega kosningaumræðu. Þessi leiðindi eru því miður óhjákvæmileg, en fleira kemur til.

Vandfundið er það framboð sem gerir tilraun til að brjótast útúr leiðindunum. Verra er, að hér eru ekki á ferð saklaus leiðindi, sem margir vilja meina að séu bara holl. Nei. Staðreyndin er sú, sem Hallgrímur Helgason rithöfundur hóf á loft um helgina á kröfufundi á Austurvelli: Fasisminn er mættur á ytri höfnina.

Ekki dugir lengur að ætla að bíða leiðindin af sér. Þau munu ekki líða hjá af sjálfum sér. Nú er að taka til hendinni og afskrifa Sjálfstæðisflokkinn, hafna hans ókristilegu og þjóðfjandsamlegu framgöngu (gleymum heldur ekki flokki hins pabbadrengsins, milljarðamæringsins og skattaskjóls- og undanskotsmannsins, Sigmundar D. Gunnlaugssonar. Þeim sem nýlega hrökklaðist úr embætti fyrir lygar).

Fáir virðast vita um hvað alþingiskosningarnar snúast. Jafnvel þótt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, undir forystu skattaskjólsbraskara og grunaðs innherjasvikara, Bjarna Benediktssonar, hafi hrökklast frá völdum vegna leyndarhyggju sem snerist um mál barnaníðings og fjölskyldu ráðherrans fráfarandi. Jafnvel þótt grímulaus ritskoðun og þöggun hafi dúkkað upp í miðri kosningabaráttunni - þöggun um meint innherjasvik hans fyrir Hrun - þá feta „andstæðingarnir“ troðna slóð: Lofa kjósendum gulli og grænum snúðum eins og venjulega. Eins og ekkert hafi í skorist, eins og engin nýmæli hafi orðið. Eins og hneykslin – gömul og ný - séu of stór til að rúmast í munni þeirra.

Sé það svo, að hneykslið sé of stórt, þá væri hægt að ræða um framtíðarsýn. Eitthvað varanlegt, eitthvað sem hægt væri að koma á og gammarnir gætu ekki jafnharðan kippt til baka. Til dæmis um sannleiksskyldu ráðherra; skipun dómara; rétt til heilbrigðisþjónustu; upplýsingarétt almennings; auðlindir í almannaeigu; rétt til framfærslu; félagsleg réttindi; frelsi fjölmiðla; lýðræði ... . Í stuttu máli: Hvers vegna ekki að ræða þá nýju stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér eftir Hrun og lýstu yfirgnæfandi stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu? Og þá staðreynd, að Alþingi hefur hunsað þann lýðræðsilegan vilja kjósenda í fimm ár? - Það væri uppbyggilegt svar við skipulögðum lygahernaði í kosningabaráttunni og jafnframt svar við því sem landsmenn hljóta að spyrja sjálfa sig: Í hvers konar samfélagi búum við? Hvers konar samfélag viljum við byggja upp á Íslandi? Svo væri gráupplagt að svara einfaldri grundvallarspurningu sem lögð er fyrir frambjóðendur á vefnum 20.oktober.is.

Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.








Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×