Erlent

Banna sendingar textaskilaboða úti á miðri götu

Atli Ísleifsson skrifar
Hinar nýju reglur ná til síma, tölvuleikja og spjaldtölva.
Hinar nýju reglur ná til síma, tölvuleikja og spjaldtölva. Vísir/Getty
Gangandi vegfarendur í Honolulu á Hawaii eiga nú á hættu að fá sekt séu þeir með athyglina við símann þegar þeir ganga yfir götu. Bandarískir fjölmiðlar segja Honolulu fyrstu stórborgina til að taka taka upp slíkt bann.

„Augun þín eru augljóslega ekki þar sem þau ættu að vera og það hefur hættu í för með sér fyrir alla. Að líta niður til að lesa textaskilaboð getur þýtt að þú fylgist ekki með umferðinni í fimm sekúndur,“ segir James Shyer hjá lögreglunni í Honolulu í samtali við Hawaii News Now.

Hinar nýju reglur ná til síma, tölvuleikja og spjaldtölva, en áfram verður heimilt að tala í síma þegar gengið er yfir götur.

„Það verður erfitt að framfylgja þessu, en ég held að þetta skili árangri,“ segir Peter Dietrich, íbúi í Honolulu í samtali við blaðið.

Rannsókn University of Maryland leiðir í ljós að um 11 þúsund óhöpp á árunum 2000 til 2011 megi rekja til þess að fólk hafi verið með athyglina í símanum þegar þeir gengu um götur.

Lögreglumenn geta því nú sektað fólk um 1.500 til 4 þúsund krónur. Síbrotamenn mega eiga von á rúmlega 10 þúsund króna sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×