Innlent

Gat ekki greitt fyrir veitingar og jós fúkyrðum yfir lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan var auk þess í talsvert annarlegu ástandi sökum ölvunar og jós fúkyrðum yfir lögreglumenn á vettvangi.
Konan var auk þess í talsvert annarlegu ástandi sökum ölvunar og jós fúkyrðum yfir lögreglumenn á vettvangi. Vísir/Eyþór
Kona var handtekin vegna gruns um fjársvik í verslunarmiðstöð í hverfi 103 rétt fyrir 17 í dag, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Konan hafði pantað sér veitingar og neytt þeirra en reyndist svo ekki vera með peninga til þess að greiða fyrir veitingarnar þegar hún var innt eftir því.

Hún var auk þess í talsvert annarlegu ástandi sökum ölvunar og jós fúkyrðum yfir lögreglumenn á vettvangi. Konan var vistuð í fangaklefa og verður þar þangað til hægt verður að ræða við hana.

Þá var töluverður erill hjá lögreglu fram eftir degi í dag en klukkan 11:30 var tilkynnt um nytjastuld á bifreið í hverfi 108 í Reykjavík og um klukkan 13 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi.

Rétt eftir 13 var svo tilkynnt um karlmann sofandi ölvunarsvefni inni á pizzastað í hverfi 112. Lögreglan fór á vettvang og vakti manninn, sem varð mjög æstur og ógnandi í garð lögreglumannanna. Var hann því handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann var vistaður í fangaklefa. Við leit á honum fundust meint fíkniefni.

Laust fyrir 14:30 var karlmaður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna ölvunar og óspekta í miðborginni. Lögregla hafði haft afskipti af honum fyrr í morgun þar sem honum var gert að koma sér heim en hafði hann ekki orðið við því.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.