Erlent

Rannsókn á barsmíðum lögregluþjóns opnuð aftur vegna myndbands

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónninn sló konuna ítrekað með kylfu.
Lögregluþjónninn sló konuna ítrekað með kylfu.
Lögregluembætti DeKalbsýslu í Georgíu í Bandaríkjunum hefur opnað á nýjan leik rannsókn á handtöku heimilislausrar konu. Það var gert eftir að myndband af lögregluþjóni slá konuna ítrekað með kylfu var birt á Youtube. Konan var handtekin fyrir betl þann 4. júní.

Í fyrstu hafði lögregluþjónninn P.J. Larscheid verið hreinsaður af ásökunum um ofbeldi í handtökunni á hinni 38 ára gömlu Katie McCray.

Stacy Zachery náði myndbandi af handtökunni, en í fyrstu sýndi hún einungis vinum og fjölskyldu myndbandið. Samkvæmt New York Times birti sonur hennar myndbandið á Youtube um miðjan júní. Það var þó ekki fyrr en síðustu helgi sem lögregluembættið varð vart við myndbandið og því var rannsóknin opnuð á nýjan leik.

Talsmaður lögreglunnar segir að Larscheid hafi verið vikið tímabundið úr starfi. Það sé þó ekki til marks um að hann hafi endilega gert eitthvað rangt. Það hafi verið gert meðan verið sé að skoða myndbandið og ganga úr skugga um að það sé í samræmi við frásögn hans af handtökunni.

Samkvæmt lögregluskýrslu um handtökuna sagðist McCrary vera starfsmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna. Þá hafi hún veit lögregluþjóninum falskt skjaldarnúmer, svokallað. Hann mun þá hafa sagt henni að hægt væri að handtaka hana fyrir að þykjast vera lögregluþjónn.

„Hún sagði að ég væri að þykjast vera lögregluþjónn og reyndi að grípa í lögregluskjöld minn,“ sagði Larscheid í skýrslunni.

Þá segir hann að hún hafi neitað að leggjast niður og því hafi hann barið hana í vinstri fótinn.

Á einum tímapunkti hélt McCrary í kylfu Larscheid og skipaði hann henni að sleppa, því annars myndi hann skjóta hana.

Í samtali við New York Times sagði Zachery að allir íbúar hverfisins viti að McCrary eigi við geðræn vandamál að stríða. Zachery og ónefndur karlmaður heyrast nokkrum sinnum kalla til konunnar og biðja hana um að streitast ekki á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×